
Niðurstaðan varð sú að hljómsveitirnar gáfu út sameiginlega yfirlýsingu með bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum og formanni þjóðhátíðarnefndar, þar sem þess er krafist að lögregluumdæmin í landinu samræmi upplýsingagjöf um kynferðisbrot.
Unnsteinn segir að tónlistarmennirnir hafi aðallega viljað fá bæjarstjórann og Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra til að ræða um vandamálið. „Við fórum fljótt í mjög hreinskilið samtal og ef bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum er kominn til Reykjavíkur að tala við okkur um kynferðisofbeldi í svona marga tíma, þá finnst mér það vera ákveðinn árangur,“ segir hann. „Þá fórum við að rissa upp einhverja svona áætlun sem þau gætu gert til þess að vekja athygli á þessu máli og bentum á að þetta er orðin dálítil stofnun, þjóðhátíð, þetta er stærsta útihátíð á Íslandi og stærsta tónlistarhátíð á Íslandi. Þau geta farið með fordæmi fyrir aðrar hátíðir.“
En fóruð þið of bratt í þetta því nú ætlið þið öll að spila? „Já við ætlum öll að spila því við teljum að við getum náð miklu meiri árangri með því að koma til Eyja með okkar málstað en undir lok dagsins erum við ekki stjórnmálamenn eða lögfræðingar. Við erum bara hljómsveitir sem gátum ekki farið að spila þarna án þess að vekja athygli á þessu heldur.“
Rætt var við Unnstein Manúel í Vikulokunum á Rás 1.