Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur koma til greina að láta hræin vera

19.07.2019 - 12:59
Mynd: Þyrluþjónustan / RUV
Ragnar Frank Kristjánsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsmála hjá Borgarbyggð, segir að ekki sé ljóst hver það sé sem eigi að bera kostnaðinn við að fjarlægja hræ grindhvala sem strönduðu á Gömlu Eyri á Löngufjörum á dögunum. „Við hjá Borgarbyggð viljum nú helst ekki vera að standa straum af þeim kostnaði við að urða 50 hvali. Það kostar örugglega einhverjar milljónir króna.“ Vel komi til greina að láta náttúruna um að hreinsunina.

Tugir grindhvala strönduðu á Gömlu Eyri á Löngufjörum í landi Litla Hrauns í Kolbeinsstaðahreppi. Hvalirnir liggja nú í fjörunni en erfitt er að komast að þeim.

Ragnar segir að hræin séu af 25 til 50 dýrum. Hann segist þurfa að fara á staðinn og upplýsa Umhverfisstofnun um stöðuna. Stofnunin haldi utan um upplýsingar um hvalreka, sem séu ólíkt meiri kvöð í dag en þeir hafi verið forðum. „Svo er óljóst með hlutverk sveitarfélags og landeiganda sjálfs. Þarna eru menn að segja að landeigandinn á hvalrekann.“

Ætlar sveitarfélagið þá ekki að taka þátt í að kostnaðinum við að redda málinu? Ragnar segir að opinberir aðilar séu með ákveðnar verklagsreglur. Náttúrufræðistofnun sjái um grunnrannsóknir og Hafrannsóknastofnun taki sýni úr hvölunum.  Það sé hins vegar ekki ljóst hvað eigi að gera við hræin sjálf. „Hvað á að gera við þau, hvernig á að koma þeim í burtu eða bara láta þau vera þarna. Það hljóta að vera einhverjir þrír kostir í stöðunni.“ 

Ragnar segir að eftir samtal við Umhverfisstofnun hafi verið ákveðið að hann færi á staðinn og skoðaði aðstæður. „Ef aðstæður eru slæmar til að draga þau á land út eða urða á staðnum, þá er það afstaða sem Umhverfisstofnun þarf að taka. Við hjá Borgarbyggð viljum nú helst ekki vera að standa straum af þeim kostnaði við að urða 50 hvali. Það kostar örugglega einhverjar milljónir króna.“

Það kemur þá til greina að láta náttúruna um þetta? „Já ég held að það komi vel til greina á svona stað. Löngufjörur eru frægar út frá náttúruverndarsjónarmiðum og fuglalífi en svo er þetta vinsæl reiðleið.  Það er mjög tvísýnt hvernig menn fara um þetta svæði. Það eru kviksyndi víða og stórhættulegt að fara um það. Ég vara fólk við að fara um svæði sem það þekkir ekki til og svo er þetta land einkaaðila.“

Rætt var við Ragnar í beinni útsendingu í hádegisfréttum. Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
Hér má sjá myndskeið af hræjunum úr lofti.