Telur innrás í Íran ekki ólíklega

09.05.2018 - 20:36
Yfirlýsingar frá Bandaríkjunum og Ísrael benda til þess að fyrsta skrefið í átt að hernaðaraðgerðum gegn Íran hafi verið tekið. Það skref er ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta að rifta kjarnorkusamningi við Íran. Þetta segir Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda.

Hann segir óljóst hvað vaki fyrir Trump. „Þetta er ekki vel ígrunduð ákvörðun sem verður til þess að styrkja stöðu Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum eða auka stöðugleika í Mið-Austurlöndum,“ segir Magnús.

Líkt og ræða Trumps hafi verið skrifuð í Ísrael

Að sögn Magnúsar verður þessi ákvörðun til þess að auka spennu á milli ríkja í Mið-Austurlöndum. Þá geti hún haft áhrif á samningaviðræður við Norður-Kóreu. „Munu þeir treysta því að setjast niður við samningaborðið með Bandaríkjamönnum þegar þeir virðast skrifa upp á alþjóðlega samninga og bakka síðan út úr þeim?“ spyr hann.

Magnús segir efnahagslega hagsmuni Bandaríkjamanna í Íran tiltölulega litla miðað við hagsmuni Evrópusambandsins, Rússlands og Kína. „Það var eins og þessi ræða forsetans hafi verið skrifuð í Tel Aviv,“ segir Magnús.

Riftun á samningnum fyrsta skrefið

Yfirvöld í Sádi-Arabíu og Ísrael hafa lýst yfir ánægju með ákvörðun Trumps. „Það sem er skelfilegt að spá í er að ýmsir aðilar í Ísrael, sérstaklega í leyniþjónustunni og innan hersins, hafa algjörlega lagst gegn þessu. Þetta virðist bara vera ríkisstjórn Netanyahu og hann persónulega sem eru fylgjandi þessum skrefum.“

Magnús telur ekki ólíklegt að hernaðarárás gegn Íran sé í kortunum. Bæði Mike Pompeo, nýr utanríkisráðherra Trumps og John Bolton, nýi þjóðaröryggisrágjafinn, hafi í gegnum tíðina lýst því yfir að þeir séu mjög fylgjandi slíkri árás. „Er úrsögnin úr þessum samningi fyrsta skrefið í átt að slíkri árás?“ spyr Magnús.

Íran ekki Írak eða Afganistan

Innrásir Bandaríkjahers í Afganistan árið 2001 og Írak 2003 eru báðar umdeildar. Magnús segir að innrás í Íran myndi vera þeim enn erfiðari. „Íran er ekki Afganistan eða Írak. Þetta er allt annað ríki með miklu stærri her. Ef Írak og Afganistan voru erfið verkefni þá er Íran mun erfiðara verkefni,“ segir Magnús að lokum.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi