Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur hálendisþjóðgarð árás á sjálfstæði landsbyggðar

26.01.2020 - 12:55
Mynd: RÚV / RÚV
Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir, bóndi og fulltrúi í sveitastjórn Bláskógabyggðar, segir áform um miðhálendisþjóðgarð vanvirðingu við sjálfstæði landsbyggðarfólks. Tómas Guðbjartsson læknir segir þjóðgarðinn jafn mikilvægan og verndun fiskimiða var á sínum tíma. Þau ræddu málið í Silfrinu í dag.

Sveitarfélög sem eiga land að fyrirhuguðum þjóðgarði eru ekki sátt við hugmyndina og hafa meðal annars mótmælt því að skipulagsvald þeirra verði skert. Bláskógabyggð er meðal sveitarfélaga sem hafa efasemdir.

Guðrún gagnrýndi það að ekkert samtal hefði farið fram við landeigendur þar sem kostir og gallar fyrirhugaðs þjóðgarðs voru metnir. Víða séu þjóðlendur sem sveitarfélögin hafa umsjón með í samráði við forsætisráðuneytið og það hafi verið mjög gott samstarf þar á milli. Það að ríkið ætli að taka það allt til sín boði ekki gott.

„Miðað við hvernig ríkið hefur staðið að málum við sum friðlýst svæði, þá treysti ég ekki ríkinu fyrir hálendinu okkar. Það er betur staðið á ýmsum málum í okkar afrétti, heldur en víða þar sem ríkið hefur komið að málum. Það er einkennilegt að ríkið sé að taka verkefni af okkur sem við höfum sannarlega sinnt, ekki fyrir skattpeninga landsmanna. Það er óskiljanlegt. Þetta er vanvirðing við okkar störf og árás á sjálfstæði landsbyggðarfólks. Af hverju má ekki treysta okkur fyrir þessu?“ sagði Guðrún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Álíka mikilvægt og verndun fiskimiða

Tómas sagði að sveitarfélögin myndu áfram koma að skipulagsmálum á sínum afrétti, en vissulega yrði það samhæfðara og meira regluverk í kringum það.

„Ég átta mig algjörlega á því að þetta er umdeilt. Þetta rok sem er í gangi núna er viðbúið. Ég er ekki sáttur sjálfur við öll útfærsluatriðin, en aðalatriðið er að ég tel mjög brýnt að við verndum hálendið. Ég vil ekki bara tala um náttúruvernd, heldur auðlindavernd. Þetta er hjarta landsins og við verðum að hugsa þetta lengra en eina mannsævi eða tvær. Ég vil meina það að þetta sé álíka mikilvægt fyrir íslenska þjóð og verndun fiskimiða á sínum tíma,“ sagði Tómas.

Tómas sagðist skilja áhyggjur bænda, en að heildarmyndin væri mikilvægari. Reynsla Íslendinga af friðlýsingum væri mjög góð, en ef ekki yrði gripið í taumana á hálendinu væri það eins og að henda handritunum í ruslið.