Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Telur hagsmunum almennings borgið

20.10.2015 - 21:33
Hundruðum milljarða króna munar á stöðugleikaframlaginu sem slitabú föllnu bankanna þriggja hafa kynnt og stöðugleikaskattinum sem verður lagður á um áramót ef nauðasamningar nást ekki. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir aðalatriðið vera hvort hægt verði að aflétta höftum.

 

Fjármálaráðherra sýnist svo vera miðað við þau tilboð sem fyrir liggi. Skatturinn hafi alltaf verið afarkostur og honum myndu ef til vill fylgja dómsmál sem verður fallið frá með nauðasamningum. Með afsláttum myndi skatturinn nema um 690 milljörðum króna, en sem stendur virðast stöðugleikaskilyrðin munu skila innan við 400 milljörðum. Bjarni segir að með þeim komi þó töluvert af erlendum gjaldeyri inn í hagkerfið, sem ekki yrði raunin með skattinum.

 

Bjarni segir tilganginn ekki vera tekjuöflun fyrir ríkissjóð, heldur að leysa undirliggjandi vanda til að geta lyft höftunum. Ef allt gangi að óskum verði síðan hægt að losa íslenskt hagkerfi undan höftunum áður en langt um líður. 

 

Fari svo að ríkið eignist Íslandsbanka, segir Bjarni ekki skynsamlegt að ríkið eigi hann til lengri tíma. Að mörgu sé þó að hyggja við söluna, bæði á Íslandsbanka og þeim 30% hlut í Landsbankanum sem er búið að ákveða að selja: „Það skiptir gríðarlega miklu máli að þar sitji allir við sama borð og að hlutirnir komist í sem dreifðasta eignaraðild...en það þarf að undirbúa báða bankana mjög vel fyrir þetta ferli.“