Telur framtíðarhorfur mófugla daprar

31.10.2019 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: Alex Máni Guðríðarson - Aðsend mynd
20 árum eftir að trjám er plantað í mólendi hverfa vaðfuglar af svæðinu, segir fuglafræðingur. Hann telur stóran hluta af mófuglum hverfa ef farin verður sú leið sem Skógræktin hefur boðað. Skógræktarstjóri segir ástæðu til að rannsaka frekar áhrif skógræktar og annarrar landnotkunar á fuglastofna. 

Efling skógræktar er neikvæð fyrir mófugla, segir Ólafur Nielsen fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann segir að á næstu 100 árum ráðgeri Skógræktin að um 42% graslendis, moslendis, mela og móa neðan við 400 metra hæðarlínu fari undir skógrækt. Á svæðinu sem sé um 10.000 ferkílómetrar séu uppeldisstöðvar rjúpu og mófugla, spóa, lóu og lóuþræls. Framtíðarhorfur þeirra séu frekar daprar. 

Lóuþræll, jaðrakan, heiðlóa, stelkur og spói eru svokallaðar ábyrgðartegundir þar sem yfir 20% af Evrópustofninum verpa á Íslandi. Það er því á ábyrgð Íslendinga að standa vörð um stofnana. Um 70% af Evrópustofni spóans eru á Íslandi og Ólafur segir vert að athuga að um 90% af öllum spóum verpi í móum neðan 400 metra hæðarlínu. Þá haldi allir jaðrakanar til undir 400 metra hæðarlínu. Fyrirhugaðar aðgerðir geti leitt til stofnhruns eða minnkunar á heildarstofni.

Vaðfuglar hverfi á 20 árum

Ólafur rannsakaði framvindu fuglalífs og skógræktar á Héraði árið 2002. Í rannsókninni voru borin saman fimm búsvæði. Eitt svæðið var mólendi, hin voru plægð mólendi þar sem mislangt var síðan trjám var plantað. Hann segir alveg ljóst hvað gerist þegar skógur vex upp. 20 árum eftir að trjám er plantað séu allir vaðfuglar, sem séu háðir opnum úthaga, horfnir af svæðinu. Í staðinn komi skógarfuglar, glókollur, auðnutittlingur og músarrindill. Hann segir stóran hluta af mófuglunum hverfa ef farin verður sú leið sem Skógræktin hefur boðað.

Margir aðrir þættir hafi áhrif

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri svarar þessari gagnrýni Ólafs í Morgunblaðinu í dag. Hann segir marga aðra þætti en flatarmál mögulegra búsvæða hafa áhrif á stofnstærð fugla. Ekki sé hægt að spá fyrir um stofnstærð með því að miða við einn þátt lífsferilsins og áhrif eins þáttar landnotkunar á hann. Skógrækt sé ekki að fara að útrýma neinni fuglategund á næstu áratugum. Full ástæða sé þó til að rannsaka frekar áhrif skógræktar og annarrar landnotkunar á fuglastofna. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi