Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Telur fólksflótta skýra úrsagnir úr kirkju

30.10.2014 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Biskup Íslands telur að brottflutning úr landi og aðflutning fólks af erlendum uppruna skýri að einhverju leyti fjölda úrsagna úr þjóðkirkjunni.

Hlutfall landsmanna í þjóðkirkjunni hefur lækkað um fjórtán prósentustig frá aldamótum. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, ræddi um úrsagnirnar í ávarpinu sínu á kirkjuþingi á laugardag og segir fjölda þeirra sem flutt hafa úr landi að einhverju leyti skýra úrsagnir úr þjóðkirkjunni. 

„Eina skýringu nefndi ég áðan og hún er sú að þegar fólk flytur úr landi þá skráist það sjálfkrafa úr þjóðkirkjunni, Þannig að á bak við tölurnar sem birtar eru frá þjóðskránni þá eru skýringar sem ekki eru gefnar upp nema bara tölurnar, þannig að ein skýringin er sú að fólk er að flytja úr landi,“ segir Agnes.

„Önnur skýring er væntanlega sú að einhverjir vilji ekki tilheyra þessu samfélaginu lengur og segja sig úr þjóðkirkjunni. Það er ekki hægt að segja sig frá þjóðfélaginu og ýmsu öðru en það er hægt að segja sig úr þjóðkirkjunni ef maður vill það.“

Agnes segir að ekki muni nema nokkur hundruð manns á fjölda þeirra sem skráðir voru í þjóðkirkjunar 1998 og nú. 

„Þjóðinni hefur fjölgað og hingað hefur líka flutt fólk af erlendu bergi sem er annarrar trúar eða þá í öðrum kirkjudeildum eða utan kirkju alveg. En þegar talað er um prósentur þá er það fólk náttúrulega með inni í heildarprósentu þjóðarinnar,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir biskup.