Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur fleiri virkjanir en Hvalárvirkjun æskilegar

04.12.2019 - 19:29
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Þórisson - Kveikur
Fleiri virkjanaframkvæmdir en Hvalárvirkjun væru æskilegar til að mæta raforkuþörf Vestfirðinga, að mati Orkubús Vestfjarða.

Fjallað var um áform um virkjun Hvalár og áhrif hennar á byggð í Árneshreppi á Ströndum í Kveik. Hvalárvirkjun hefði víðtæk áhrif og er talin mikilvæg til að tryggja að raforkuþörf á Vestfjörðum sé fullnægt. Þó er orkan frá virkjuninni ekki eyrnamerkt landshlutanum og gæti því ekki dugað til. Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, telur því að hyggilegt væri að reisa fleiri virkjanir.

„Við náttúrulega stöndum frammi fyrir því að við þurfum meira afl inn á Vestfirði. Það er langt að sækja aflið inn á meginflutningskerfi rafmagns. Þannig að við teljum æskilegt að virkja meira, já,“ segir hann.

Í Kveik kom fram að virkjanakostir í Austurgili og við Skúfnavötn þegar verið teknir til skoðunar. Þær virkjanir yrðu þó til frekara rasks í náttúru. Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna, segir fórnarkostnaðinn of háan.

„Fyrir landshluta þar sem sérkennið er ósnortin náttúra og nálægð við náttúruna þá væri það náttúrulega gífurleg fórn,“ segir hann.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur ekki litið til Skúfnavatna og Austurgils. Sambandið telur afhendingaröryggi raforku á Vestfjarðakjálka engu að síður velta á Hvalárvirkjun. 159 truflanir urðu í raforkukerfi Orkubús Vestfjarða 2018 og 189 árið áður.

„Við erum ekki sjálfbær í okkar raforkuframleiðslu, við framleiðum aðeins um 60% af þeirri raforku sem við erum að nota. Síðan er það Vesturlínan sem flytur orkuna frá öðrum landshlutum, sem við erum afskaplega háð. Hún er að bila oft sem veldur spennutruflunum á svæðinu með miklum kostnaði fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum.“

Athugasemd 5.12.2019 fyrirsögn hefur verið breytt.