Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telur fámenni Vestfjarða geta verið auðlind

10.05.2017 - 19:15
Suðureyri súgandafjörður
Suðureyri við Súgandafjörð Mynd: Jóhannes Jónsson
Fámennið er ákveðin auðlind segir sagnfræðingur. Öldum saman voru íbúar Vestfjarða um 15 prósent landsmanna en eru nú um tvö prósent. Aftenging manns og náttúru annars vegar og atvinnu og staðar hins vegar hefur haft áhrif á fólksfækkun sjávarþorpa en hefur að sama skapi stuðlað að því að fólk getur nú flutt og starfað hvar sem það vill - til dæmis í litlum sjávarþorpum.

„Staðurinn, Flateyri eða Ísafjörður, skiptir ekki lengur máli og þess vegna getur fiskvinnsla flust í einum vetfangi frá einum stað til annars. Þótt fiskurinn fari ekki neitt - hann er alltaf á sama stað. Þetta nána samhengi sem var á milli fólksins, landsins sem það bjó á, og fiskimiðanna, það er búið að rjúfa það því nú fær einstaklingurinn ekki leyfi til að veiða fiskinn sem syndir undan ströndinni án þess að kaupa leyfið frá einhverjum sem hann veit ekki almennilega hver er.“

Segir Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðingur og forseti hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Hann var einn fyrirlesara á málþingi um stöðu sjávarþorpa sem var haldin á Flateyri síðustu helgi. Guðmundur segir kvótakerfið í sjávarþorpum dæmi um þá aftengingu sem hefur orðið milli manns og náttúru.

„Nútíminn gengur svolítið út á það að slíta atvinnu úr samhengi við staðinn, og þessa róttengingu sem kemur fram í því að nútímafólk er miklu meira á ferðinni heldur en það var áður og verður heldur ekki eins rótfast.“

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðingur og forseti hugvísindasviðs HÍ

Fólk ekki eins tengt heimahögunum 

Öldum saman bjuggu um 15 prósent landsmanna á Vestfjörðum. Guðmundur segir Vestfirði hafa einkennst af nánd sjávar og sveitar. Ef annað brást þá höfðu íbúar að öðru að hverfa. Á seinni hluta 20. aldar tók fólki á Vestfjörðum að fækka vegna samfélagsbreytinga. Sveitirnar tæmdust og samþjöppun varð í sjávarútvegi. Nú búa um 2 prósent landsmanna á Vestfjörðum.

Guðmundur segir að tengsl fólks við uppeldisstaði hafa minnkað og tekur sem dæmi Bandaríkin þar sem fólk er uppalið á einum stað, stundar sitt háskólanám á öðrum og vinnur á þeim þriðja. Er því ekki endilega tengt einum stað sérstaklega. En þá ætti það að gera það að verkum að fólk getur frekar búið á stöðum eins og hér. En hverjar eru forsendurnar fyrir því að það geti gerst?

„Það er kannski sú draumsýn sem maður sér, það verður náttúrlega aldrei ofboðslegur fjöldi fólks sem vill búa á Vestfjörðum. Enda tel ég það ekki eftirsóknarvert. Það þurfi  bara að vera nógu margir til að byggðin haldist.“

Slæmar samgöngur meðal vanda Vestfirðinga

Til að byggð haldist þurfi að vera til staðar grunnþjónusta. Guðmundur tekur samgöngurnar sem dæmi um vanda sem Vestfirðir standi frammi fyrir. Enn eru gamlir malarvegir á stoðleiðum Vestfjarða, Vestfirðir eru ekki á hringveginum og norðanverðir og sunnanverðir Vestfirðir eru aðskildir samgöngulega séð að vetri - þótt bót verði á með tilkomu Dýrafjarðarganga. Þá gengur illa að halda áætlun á flugi til Ísafjarðar. Oft er Ísafjörður eini innanlandsflugvöllurinn sem ekki er hægt að fljúga á en flugvallarstæðið er á milli hárra fjalla Skutulsfjarðar og reynist fluginu erfiður.

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Ísafjarðarflugvöllur í Skutulsfirði

Fleiri sem geta starfað þar sem þeir vilja

Guðmundur segir þó að nú sjái hann ýmis tækifæri sem gætu breytt stöðunni fyrir sjávarþorp og smærri byggðir.

„Með svona breytingum sem eru að verða bara í kringum internet og annað slíkt sem kemur í framhaldi af þessari afstaðvæðingu að við þurfum ekki að búa á staðnum til að vinna. Það gefur okkur kost á því að finna staðinn.“

Guðmundur telur að það þýði ekki að snúa aftur til tíma sem sé horfinn. Meginatvinnuvegur sjávarþorpanna verður ekki að róa eftir fiski. Vestfirðir geti reynst draumastaður fyrir þá sem hafa vinnu í staðleysu og fámenninu, fáum íbúum og fáum ferðamönnum, fylgi tækifæri.

„Ég held að fámennið sé ákveðin auðlind. Það hentar ekki öllum sem að búa í stórborg og sumir vilja búa í fámenni og finnst það æskilegt. Og það er ekkert víst að allir vilja það. Ef allir vildu þá þá væri það ekki lengur fámenni. Svo þetta gæti alveg orðið auðlind af því leytinu til að ef innviðirnir eru til og samgöngurnar eru lí lagi og fólki er gert kleift að vinna við það sem þeir vilja þá gætu Vestfirðir alveg orðið svæði sem fólk sækti í til að geta lifað rólegu lífi í nánd við fallega náttúru. Það get ég alveg séð fyrir mér.“