Telur erfitt fyrir Pírata að gera málamiðlanir

16.09.2016 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, telur að það gæti orðið erfitt fyrir hugsjónaflokk eins og Pírata að gera málamiðlanir í ríkisstjórnarsamstarfi. Og því sé hugsanlegt að stjórnarmyndunarviðræðurnar eftir kosningarnar hér í haust verði erfiðar.

Þetta kom fram í viðtali bresku sjónvarpsstöðvarinnar Channel 4 við Guðna sem tekið var á miðvikudag og sýnt í gærkvöld. Guðni fór til Bretlands á þriðjudag en þar hefur hann meðal annars flutt fyrirlestur við háskólann í Leeds og verið viðstaddur opnun sýningar Guðrúnar Sigríðar Haraldsdóttur í Lundúnum. 

Guðni var spurður um það mikla fylgi sem Píratar hafa mælst með að undanförnu í skoðanakönnunum. „Þetta er táknmyndin um vantraustið sem ríkið í garð gömlu stjórnmálaflokkanna. Við gætum séð mjög flókið ferli í næstu stjórnarmyndunarviðræðunum - munu Píratar geta unnið með öðrum flokkum? Tíminn verður að leiða það í ljós. Menn verða að geta gert málamiðlanir í slíkri stöðu og þegar þú ert hugsjónaflokkur eins og Píratar þá geta slíkar málamiðlanir oft verið erfiðar.“

Guðni var þá spurður út í þá afstöðu Pírata að bjóða uppljóstraranum Edward Snowden íslenska ríkisborgararétt komist þeir til valda. „Þá reynir einmitt á hæfileika Pírata til málamiðlana og hvort hinir flokkarnir í ríkisstjórninni séu reiðubúnir til að fallast á slíka ákvörðun sem myndi eflaust fá einhver hár til að rísa.“ Jafnvel í Bandaríkjunum og Rússlandi og þið föst á milli? „Já, það var gott í kalda stríðinu en ég veit ekki hversu gott það verður í dag.“

Spyrill Channel 4 var jafnframt áhugasamur um stöðuna á Íslandi - Guðni væri nýr í embætti,  Píratar gætu í fyrsta skipti komist í stjórn, forsætisráðherra landsins hefði sagt af sér vegna Panamaskjalanna og enn væru nokkrir bankastjórar í fangelsi. Þið vísið veginn? „Við erum ekki að hugsa um það. Við viljum bara breyta rétt og ef fólk vill horfa til þess þá er það bara ágætt.“

Guðni var einnig spurður út í stöðu Evrópusambandsins, Brexit og sýn hans á stöðu Íslands - innan þess eða utan en sagðist ítrekað vilja forðast að blanda sér í bresk stjórnmál.  „Ég vil sjá hvernig hlutirnir þróast og hvað við getum fengið,“ sagði Guðni og bætti við að á Íslandi hefðu menn vissulega haft samúð með ákvörðun Breta að segja sig úr ESB. En það hefðu líka verið hópur sem taldi Breta hafa tekið ranga ákvörðun.  Hann sagði Breta eiga að skoða EES-samninginn og athuga hvort hann hentaði þeim - á Íslandi væri almennt talið að sá samningur hefði tryggt Íslandi brot af því besta frá báðum aðilum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi