Telur ekki tilefni til að íhuga afsögn

30.11.2018 - 13:24
Mynd:  / 
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, segir að hann vilji starfa áfram innan flokksins og að afsögn komi ekki til greina.Enginn ummæli hafi verið höfð eftir honum sem gefi honum tilefni til að íhuga afsögn. Hann tekur undir með samflokksmanni sínum Ólafi Ísleifssyni að fyrirhugaður fundur stjórnar flokksins síðar í dag geti ekki talist lögmætur og sé því ekki ályktunarbær.

Á stjórnarfundi hjá Flokki fólksins í gærkvöld var samþykkt tillaga um að Ólafur og Karl Gauti ættu að segja af sér þingmennsku í kjölfar þess að niðrandi samræður sem þeir tóku þátt í rötuðu í fjölmiðla. Ólafur og Karl Gauti voru fyrst á fundinum en voru farnir í veislu á Bessastöðum þegar þetta var samþykkt. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi flokksins, segir að niðurstaðan hafi verið einróma enda málið grafalvarlegt og mikill trúnaðarbrestur. 

Karl Gauti segir að þeir hefðu óskað eftir því á fundinum í gær að þeir fengju tækifæri til að undirbúa andmæli, skýra sitt mál og tala við sitt bakland og sína kjósendur áður en þeir myndu mæta á löglega boðaðan fund. Samkvæmt samþykktum flokksins þurfi tveggja daga fyrirvara til þess að fundur teljist rétt boðaður. Þess í stað hafi fundurinn samþykkt áðurnefnda tillögu. 

Karl Gauti telur að það hefði verið sjálfsögð kurteisi að gefa þeim svigrúm til að svara fyrir sig.  „Þau komast að þessari niðurstöðu sem ég er auðvitað mjög óánægður með að þau skyldu gera þetta svona hratt og gefa okkur ekki tækifæri til að tjá okkur.“ Svona ákvarðanir eigi ekki að taka í flýti. 

„Ég var kjörinn í stjórn í haust og fékk flest atkvæði. Ég tel þetta ekki góða framkomu að fá ekki tækifæri til að ræða málið í rólegheitum. Það er sjálfsögð kurteisi að fá svigrúm til að svara þessu.“

Karl Gauti segir að hann hafi beðist afsökunar. „Ég legg ofuráherslu á það að þingflokkur og Flokkur fólksins haldi sinni stöðu og sýni öguð og vönduð vinnubrögð við úrlausn þessa máls.“ 

Milla Ósk Magnúsdóttir ræddi einnig við Karl Gauta í þinghúsinu í hádeginu. Hægt er að horfa á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV