Telur ekki hægt að réttlæta viðskiptahætti Samherja

18.11.2019 - 11:48
Þorvaldur Gylfason - Mynd: RÚV / RÚv
Þorvaldur Gylfason hagfræðingur segir að ekki sé hægt að réttlæta framferði og viðskiptahætti Samherja í Namibíu með þeim rökum að slíkt sé venjan í Afríku. Það sé vissulega vitað að þar sé mikil spilling og mútuþægni en gögnin sem hafa komið fram í þessu máli séu skýr. 

„Mútur eru ólöglegar, ekki bara í okkar heimshluta heldur einnig í Afríku. Það er ólöglegt að greiða mútur og það er ólöglegt að taka við þeim. Og það er vegna þess að mútur eru bæði ranglátar gagnvart þeim sem til dæmis verða af verktakasamningum af því óverðugri verktaki fékk verkefni í gegnum mútugreiðslur. Og það eru þessi skýru réttlætisrök fyrir lögbanni gegn mútum.“ Sagði Þorvaldur Gylfason á Morgunvaktinni á Rás1 í morgun. 

„Ég þekki menn sem halda því fram, alveg hreint í fúlustu alvöru, að maður eigi að tala um mútuþægni sem gestrisni frekar en eitthvað annað en gögnin eru býsna skýr. Spilling grefur undan bæði lífskjörum almennings og lýðræði. Þetta er alveg ljóst í Afríku. Þau tíu lönd af 50 sem eiga mestar auðlindir búa við minnst lýðræði og þau tíu lönd í Afríku sem eiga minnst af náttúruauðlindum búa við mest lýðræði. Og þetta er mynstur sem maður sér um allan heim.“ segir Þorvaldur.

Hann segir að Afríka sé ein auðugasta heimsálfan af náttúruauðlindum. „Hin auðugasta er Austurlönd nær og Norður-Afríka. Þar er auðlindarentan, sem svo er kölluð, talin nema um fjórðungi af landsframleiðslunni en í Afríku sunnan Sahara er þetta hlutfall um 10%. Til samanburðar er hlutfallið fyrir heiminn í heild 3% og á Íslandi 4-5%. Þetta gerir Afríku auðvitað sérstæða, hún er svo rík af olíu og góðmálmum og öðrum auðlindum og þess vegna hefur verið slegist um hana.“

Nú er komið nóg

„Svo get ég sagt þér að einn reyndasti löggæslumaður landsins kom til mín og sagði mér meðal annars að mútugreiðslur hefðu verið alsiða á Íslandi um áratugaskeið. Hann sagði mér að það væri mýta og þjóðsaga að mútur tíðkist ekki á Íslandi eins og í öðrum löndum. Og þeim mun sárara er áhugaleysi lögregluembætta og saksóknara og yfirvalda á því að grafast fyrir um þetta. Þetta mútuhneyksli Samherja í Afríku, sem hefur þegar kostað tvo ráðherra starfið, ætti að vekja yfirvöld á Íslandi af værum blundi. Nú er komið nóg.“ segir Þorvaldur. Hann segist ekki vongóður um að yfirvöld bregðist rétt við en hann sé vongóður um að fólkið í landinu láti til sín taka vegna málsins. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi