Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Telur ekki farið gegn lögum um þingsköp

Mynd: RÚV / Rúv
Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, telur að ríkisstjórnin hafi ekki farið á svig við lög um þingsköp með því að bera tilkynningu um viðræðuslit við Evrópusambandið ekki undir nefndina.

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, segir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar, um að tilkynna Evrópusambandinu að Ísland sæktist ekki lengur eftir aðild að sambandinu, hafi ekki verið borin undir nefndina. Samkvæmt lögum um þingsköp skal ríkisstjórnin ávallt bera meiri háttar utanríkismál undir utanríkismálanefnd. Í samtali við Morgunútgáfuna sagði Birgir að hann teldi ríkisstjórnina ekki hafa farið á svig við þetta, þar sem ekki hafi verið um stefnubreytingu að ræða. „Enda held ég að menn líti svo á að hér sé ekki um að ræða neina stefnubreytingu, eða neitt annað, heldur en í raun og veru það að árétta þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur margoft látið koma fram,“ segir Birgir.

Aðspurður hvort ríkisstjórnin fari ekki gegn þingsályktunartillögu sem enn sé í gildi segir hann: „Um þingsályktanir almennt þá gildir það að ráðherrar eða ríkisstjórn bera pólitíska ábyrgð á því að framfylgja þeim. Ef þingmenn eða þingflokkar eru ósáttir við það hvernig þingsályktunum er framfylgt, þá hafa þeir úrræði í þinginu til þess að gagnrýna það og koma því á framfæri, og geta eftir atvikum, ef þeir telja að menn hafi farið út fyrir mörkin, borið fram vantraust eða eitthvað þess háttar.“

Birgir sagðist ekki vita hvers vegna málið var ekki tilkynnt Alþingi áður en bréf þess efnis var afhent formanni ESB.

Málið verður tekið fyrir í utanríkismálanefnd og utanríkisráðherra kallaður fyrir hana eftir helgi.