Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur eigendur vera vandamál hunda sem bíta

03.04.2018 - 18:08
Mynd með færslu
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Wikimedia Creative Commons
Hundaatferlisfræðingur segir að þegar hundar bíta séu þeir í aðstæðum sem þeir ráða ekki við. Hundar séu í eðli sínu rándýr og eigendur þeirra þurfi að átta sig á því. Fimm ára drengur slasaðist alvarlega þegar hundur beit hann í andlitið á föstudaginn. Eigandi hundsins ætlar að lóga dýrinu.

Hundurinn sem réðst á drenginn var tjóðraður í garði í Kópavogi. Björn Ólafsson hundaatferlisfræðingur sagði í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 að bannað sé að tjóðra hunda án eftirlits, til dæmis fyrir utan verslun. 

„Flest bit virðast koma upp þegar hundar eru tjóðraðir og þeir eiga ekki flóttaleið. Hundar eru alltaf hundar alveg sama hvað þeir eru stórir eða litlir. Fleira og fleira fólk heldur að þetta sé svo yndislegt, þetta er svo fallegt og gott. Það halda allir að hundurinn þeirra bíti ekki en möguleikinn er alltaf fyrir hendi.“ 

Björn segir jafnframt að besta leiðin til að verjast hundi í árásarham sé að leggjast á grúfu og fela hendurnar. Ekki borgi sig að reyna að slást við hund. Hann segir að ekki þurfi að lóga hundi sem bítur; eigendurnir séu yfirleitt vandamálið. 

„Hundur sem lendir í því að bíta á yfirleitt við svo stórt eigendavandamál að stríða að það þarf alltaf að byrja á því að temja eigandann. Við breytum ekkert eigandanum. Og þá er spurning um að koma honum á nýtt heimili. Og hvern langar í hund sem er með svona sögu? Það er til nóg af fínum hundum,“ segir Björn. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV