Telur breytingar hjá GMR kalla á umhverfismat

09.12.2016 - 09:44
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - Rúv
Skipulagsstofnun telur að breytingar sem til stendur að gera á úrgangsferli endurvinnsluverksmiðjunni GMR á Grundartanga kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háðar mati á umhverfisáhrifum. Fyrirtækið ætlaði að endurvinna öll úrgangsefni sem féllu til hér á landi en telur vegna breyttra aðstæðna að ekki sé raunhæft að standa að því eins og það var fyrirhugað.

Þetta kemur fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar sem birt var á vef hennar í byrjun mánaðarins. 

Kastljós fjallaði um málefni fyrirtækisins fyrr á þessu ári en þar kom fram að Umhverfisstofnun hefði gert athugasemdir við á þriðja tug tilvika sem talin væru í andstöðu við ákvæði starfsleyfis sem fyrirtækið fékk. 

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar kemur fram að úrgangsefnin hafi verið flokkuð og geymd á lóð fyrirtækisins á Grundartanga þar sem ekki hafi tekist að endurvinna þau eins og til stóð.  Fyrirtækið vilji nú urða síuryk, gjall og fóðringar í flæðigryfju á Grundartanga þar sem Elkem og Norðurál urða hluta af sínum úrgangi. 

Hvalfjarðarsveit lagðist gegn þessari tilhögun - ekki væri hægt að fallast á að það væri langtímalausn að urða úrgang í flæðigryfju. Umhverfisstofnun sendi Skipulagsstofnun þrjár umsagnir. Í þeirri fyrstu er bent á að fyrirtækið hafi ekki heimild í starfsleyfi sínu til að farga úrgangi í flæðigryfju. Slík ráðstöfun myndi kalla á breytingu á starfsleyfi eða nýtt starfsleyfi.  Í annarri umsögn segir Umhverfisstofnun að hún telji að framkvæmdin skuli háð umhverfismati og í þeirri þriðju segir að fátt hafi komið fram um mótvægisaðgerðir af hálfu GMR vegna þessara breytinga.

Skipulagsstofnun segir í niðurstöðum sínum að fyrirtækið hafi horfið frá fyrri áformum um að flytja úrgang til endurvinnslu. Umfang fyrirhugaðrar förgunar sé mikið eða um 2.000 tonn.  Ef sá kostur yrði fyrir valinu að urða í flæðigryfju væri það magn úrgangs það mikið að svæðið sem kæmi til greina myndi ekki endast nema í þrjú til sex ár.  Stofnunin kemst því að þeirri niðurstöðu að breyting á úrgangsferli GMR kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif  og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum.

GMR hefur frest til 3. janúar til að kæra þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi