Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telur bótagreiðslur kalla á skattahækkanir

26.06.2013 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Vandséð er hvernig standa á undir auknum útgjöldum vegna hærri bóta til aldraðra og öryrkja ef jafnframt á að ná niður halla ríkisins á næsta ári, að mati fjármálaráðuneytisins. Leiða megi líkum að því að hækkunin verði fjármögnuð með skattahækkunum.

Fjármálaráðuneytið segir að leiða megi líkum að því að hærri bætur í almannatryggingakerfinu verði fjármagnaðar með lánum, og greiðsla þeirra síðan fjármögnuð með skattahækkunum. Vandséð sé hvernig hægt verði að ná niður halla ríkisjóðs með slíkri útgjaldaaukningu.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra kynnti í gær lagafrumvarp þar sem stíga á fyrsta skerfið í að afturkalla skerðingar á bótum til aldraðra og öryrkja. Umræða um frumvarpið hefst á Alþingi í dag. Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkisins vegna þessa aukist um átta hundruð og fimmtíu milljónir á þessu ári og einn komma sex milljarð á því næsta. Fjármálaráðuneytið bendir í umsögn sinni á að þar sem ekki sé gert ráð fyrir slíkri útgjaldaaukningu í ríkisfjármálaáætlunum versni afkoma ríkissjóðs sem þessu nemur vegna beinna áhrifa af lögfestingu frumvarpsins. Þá bendir ráðuneytið einnig á að frá og með næsta ári sé gert ráð fyrir þriggja milljarða auknum útgjöldum vegna lækkunar á hlutfalli tekjutengingar vegna tekjutryggingar. Þetta er ekki hluti af frumvarpinu sem var kynnt í gær en vinna við þetta er hafin í ráðuneytinu.

Þegar þessar fyrirætlanir eru teknar með aukast útgjöld til almannatryggingakerfisins um fjóra komma sex milljarða á ári frá og með næsta ári. Fjármálaráðuneytið segir að þar sem ríkissjóður sé ennþá rekinn með halla þurfi að óbreyttu að mæta þessum auknu útgjöldum með lántökum með tilheyrandi vaxtakostnaði. Leiða megi líkum að því að lögfesting frumvarpsins geti haft í för með sér skattahækkanir í framtíðinni til að standa skil á þeim skuldum. Þó er bent á að fyrri ríkisstjórn hafi ekki sett fram áform um hvernig skerðingarnar yrðu teknar til baka, þó að þær hafi alltaf átt að vera tímabundnar.

Ráðuneytið telur vandséð hvernig staðið verður undir þessari auknu fjárþörf samhliða því að ná niður halla ríkissjóðs á næsta ári án þess að skera niður eða hækka skatta. Umfang slíkra aðgerða þyrfti að vera af stærðargráðu sem svarar til árlegrar veltu sjúkrahússins á Akureyri. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra var spurð í gær hvernig útgjöld vegna nýs frumvarps yrðu fjármögnuð. Eygló sagði að ríkisstjórnin muni horfa til þess hvernig hún geti aukið tekjur ríkissjóðs, en afrakstur þeirrar vinnu verði ljós þegar tekjutillögur ríkisstjórnarinnar verða birtar í haust.