Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur ákvörðun Trumps pólitík sem kalli á aðgerðir

12.03.2020 - 13:12
Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor. - Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta er algjörlega fordæmalaus ákvörðun og setur samskipti Bandaríkjanna og Evrópu algjörlega í uppnám, í miðri þessari krísu sem nú er orðin að mjög alvarlegri dipómatískri deilu, ofan í allt saman,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur um algjört bann við ferðum frá Evrópu til Bandaríkjanna í 30 daga frá og með miðnætti á föstudag vegna COVID-19 veirunnar.

„Það blasir við að Evrópuríkin þurfa að bregðast við þessu með einhverjum hætti. Diplómatísk samskipti eru yfirleitt þannig að aðgerðir kalla á mótaðgerðir og að ríki þurfi að svara fyrir sig. Þessi aðgerð hefur skaðleg áhrif fyrir Evrópuríkin og þá er því yfirleitt mætt með samsvarandi hætti. Kannski þó með annarri útfærslu,“ segir Eiríkur. 

Trump var kominn út í horn heima fyrir

Það gæti þó orðið nokkur bið á viðbrögðum, því Evrópusambandið þurfi að leggja meira mat á hlutina áður en gripið er til aðgerða. Eiríkur telur þó öruggt að viðbrögð komi frá Evrópu, ekki síst þar sem þessi ákvörðun Bandaríkjaforseta virðist meira snúa að pólitíkinni heima fyrir.

„Það er augljóst að Donald Trump var kominn algjörlega út í horn heima fyrir vegna slælegra viðbragða við þessari krísu sem hann virtist ekki vilja horfast í augu við, reyndi að gera lítið úr henni og að hún næði ekki til Bandaríkjanna. Þegar sú hernaðartækni hans var komin í algjört öngstræti og öll spjót stóðu á honum tekur hann mjög afgerandi ákvörðun sem vísindamenn segja að hafi samt sem áður engin áhrif til þess að hefta útbreiðslu vírussins í Bandaríkjunum,“ segir Eiríkur.

Grefur undan Evrópusambandinu

Þá geri það stöðuna enn pólitískari að Bretar eru undanskildir ferðabanninu, á þeim forsendum að þeir séu ekki hluti af Schengen-svæðinu.

„Þetta er því einfaldlega pólitísk aðgerð til þess að sýna fram á að hann sé á einhvern hátt við stjórnvölinn. Svo kemur hún líka inn í þetta heimspólitíska samhengi þar sem hann hefur viljað grafa undan Evrópusambandinu. Meðal annars með því að styðja útgöngu Breta út úr því, og það endurspeglast í því að Bretar eru þarna undanþegnir. Það gerir þetta líka flóknara viðureignar fyrir Evrópuríkin og kallar enn frekar á eitthvert mótvægi,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur.