Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telur að lögbanni verði hnekkt

17.10.2017 - 08:54
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi slitastjórnarmaður í Glitni segir það ekki standast lög að sýslumaður hafi sett lögbann á fréttir eða aðra umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media sem byggð er á eða unnin upp úr gögnum sem koma úr gamla Glitni. Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður telur að lögbannið verði ekki staðfest þar sem það sé of víðtækt.

Einar Gautur, sem sat í slitastjórn Glitnis í eitt ár frá 2009 til 2010, sagði í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 að hann hefði ekki séð skjöl málsins en eins og greint hefði verið frá því í fjölmiðlum standist lögbannið ekki. 

„Það gengur ekki vegna þess þetta er alltof víðtækt. Ef menn skoða lögin um skilyrði lögbanns þá er það við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn. Það er ekki vitað til þess að Stundin sé að fara að birta fréttir um öll þau gögn sem þau hafa undir höndum. Þannig að þetta er bara brot á reglum um ritskoðun,“ segir Einar Gautur.

Hvað þýðir það ef þetta er of víðtækt? „Þá verður lögbannið ekki staðfest. Í einu máli sem kom til hæstaréttar 2005, ef ég man rétt, þar var lögbann einmitt ekki staðfest af því að það var alltof víðtækt. Það er ekki nóg að vísa í bankaleynd. Það er ekki nóg að segja að gögnin séu stolin. Það skiptir ekki máli hvort það er bankaleynd eða gögn eru stolin ef fjölmiðill er kominn með þau undir hendur frá heimildarmanni, þá má hann ekki gefa upp nafnið á heimildarmanni og hann má fjalla um þau ef efnið á erindi við almenning,“ segir Einar Gautur.