Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telur að breytingar á rjúpnaveiðum hafi gefist vel

27.11.2019 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Góð reynsla er af þeim breytingum sem gerðar voru á tilhögun rjúpnaveiða í haust að mati talsmanns skotveiðimanna. Hann vill að gerði verði langtímaáætlun um tilhögun rjúpnaveiða og veiðidögum fjölgað frekar.

Í haust var rjúpnaveiðidögum fjölgað úr 15 í 22. Í stað þess að veiðar hefjist síðustu helgina í október er veiðin nú bundin við nóvember og heimilt að veiða alla daga nema miðvikudaga og fimmtudaga. Nú eru því tveir dagar eftir af veiðitímanum, föstudagur og laugardagur.

Rólegra yfir veiðunum þegar fleiri dagar eru í boði  

Skotveiðifélag Íslands hefur undanfarin ár barist fyrir fjölgun veiðidaga og Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, segir að þessar breytingar hafi reynst vel. „Kosturinn við breytingarnar eru þær að menn geta valið dagana betur, farið á góðum dögum. Og þeir sem eru í vaktkavinnu og einhverju slíku komast þá á veiðar einn eða tvo daga ef á þarf að halda. Menn eru mun rólegri, sýnist mér, við veiðarnar."

Vill sjá langtímaáætlun um tilhögun rjúpnaveiða

Áki segir að sú tilraun sem nú var gerð, með breyttu formi rjúpnaveiða, verði metin að veiðitímanum loknum. Það sé nauðsynlegt að ákveða til framtíðar hvernig haga skuli veiðinni og alveg ljóst að það megi fjölga veiðidögum enn frekar. „Og það á alveg að vera hægt. Við eigum mikið af gögnum um rjúpuna og veiðistjórnun, talningar og veiðisókn. Þannig að það á ekki að vera neitt mál að setja upp eitthvað plan sem á að geta dugað næstu 20-25 árin. Ég er kannski ekki alveg að tala um fara aftur upp í 69 veiðidaga. En 30-40 dagar ættu alveg að vera innan skekkjumarka.“

Aldrei á vísan að róa í rjúpnaveiði

En veiðin í vetur hafi í flestum tilfellum gengið vel. Veðrið hafi verið óvenju gott og aðstæður eftir því. „Menn hafa lent stundum í góðri veiði, þá erum við að tala um einhvarjar 10-15 rjúpur á mann yfir daginn. Og síðan hafa menn á móti jafnvel núllað tvo dga í röð. Þetta er nú það skemmtilega við rjúpuna, það er aldrei á vísan að róa."