Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja vindvirkjanirnar skerða lífsgæði

25.04.2019 - 19:20
Mynd: Siemens Gamesa / Siemens Gamesa
Ágreiningur ríkir um áform um vindorkuver í landi Hróðnýjarstaða í Dalabyggð. Nágrannar ábúenda á Hróðnýjarstöðum eru ósáttir og telja fyrirhugaðar vindvirkjanir skerða lífsgæði sín.

Fyrirtækið Storm orka hefur lagt fram tillögu til Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum af vindmyllugarði. Hugmyndin er að reisa 18 til 24 vindmyllur sem framleiða 80 til 130 megavött af rafmagni og selja inn á dreifikerfi Landsnets. Landsvæðið sem fellur undir vindorkuverið verður 419 hektarar ef breyting á aðalskipulagi Dalabyggðar fæst samþykkt.

Magnús Jóhannsson, framkvæmdastjóri Storm orku, segir að búið sé að fjármagna undirbúningsfasa verkefnisins sem kostar um það bil 300 milljónir króna. Enn eigi eftir að fjármagna framkvæmdahluta verkefnisins en Storm orka nýtur stuðnings Siemens Gamesa Renewable Energy, framleiðanda vindmyllanna sem reistar verða ef leyfi fást. Óvíst er hvenær framkvæmdir geta hafist.

„Tímaramminn í svona stóru verkefni er svolítið kúlutyggjó,“ segir Magnús. „Við stýrum ekki tímanum. Ef ég fengi að ráða þá væri ég farinn þarna upp eftir og byrjaður að moka. En við þurfum að fara eftir lögum og reglum.“

Sveitarstjórnin í Dalabyggð hefur veitt fyrirtækinu leyfi til þess að reisa rannsóknamöstur og byrjað að breyta aðalskipulagi til þess að verkefnið geti orðið að veruleika.

Það er hins vegar talsverð andstaða við áformin meðal nágranna bræðranna Magnúsar og Sigurðar Eybergs Jóhannssona á Hróðnýjarstöðum. Nálægð fyrirhugaðs vindorkugarðs við mannabústaði hafa helst setið í nágrönnunum og þeim þykir helst til lítið gert úr ferðaþjónustu á svæðinu sem sögð er afar takmörkuð.

Magnús segist hafa lagt sig fram við að halda nágrönnum og sveitarstjórninni upplýstri um framgang verkefnisins. Tveir íbúafundir hafa verið haldnir til þess að kynna verkefnið fyrir fólki í sveitinni. „Á seinni íbúafundinum sem við héldum þegar við við vorum búnir að upplýsa svolítið vel þá voru töluvert minni áhyggjur, kannski eins og eðlilegt er þegar fólk hefur upplýsingarnar fyrir framan sig.“

Nágrannar hafa efasemdir

Sigurður Sigurbjörnsson á Vígholtsstöðum, næsta bæ við Hróðnýjarstaði, hefur hins vegar efasemdir um fyrirhugað raforkuver. Hann heldur úti vefsíðunni hagsmunir.is þar sem hann fjallar um framvindu málsins og greinir frá viðbragði bæjaryfirvalda við fyrirspurnum og athugasemdum.

„Ég held að það séu lang fæstir sem eru eitthvað á móti beislun vindsins,“ segir Sigurður þegar fréttastofa náði tali af honum. „Þetta snýst aðallega um hvernig farið er að því þegar setja á niður raforkuver í bakgarðinum hjá þér.“

Spurður hvernig þetta hafi verið kynnt fyrir nágrönnum segir Sigurður að áformin hafi ekki verið kynnt fyrr en óskað var eftir því. Spurður hvort hann og fjölskylda hans séu á móti þessu segir hann: „Já, við erum á móti þessu. Okkur finnst þetta ekki eiga heima á þessum stað,“ segir hann. „Við erum mótfallin því að það komi raforkuver í bakgarðinn hjá okkur.“