Telja ummæli líffræðings mistúlkuð

07.08.2019 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson - Víkurfréttir
Fulltrúar Samtaka hvalaskoðunarfyrirtækja og Hafrannsóknarstofnunar funduðu í dag um ummæli líffræðings stofnunarinnar í frétt um helgina eftir að um 50 grindhvalir syntu á land við Útskála í Garði. Hafrannsóknastofnun telur ummæli líffræðingsins hafa verið mistúlkuð og að ekki sé ástæða til að draga þau til baka.

Rætt var við líffræðinginn í sjónvarpsfréttum eftir að um 50 grindhvalir syntu á land við Útskálakirkju í Garði. Hann sagði að hvalaskoðunarskip geti ruglað hvalavöður og áttaskyn þeirra og að eðlilegt sé að skoða hvort takmarka þurfi hvalaskoðunarferðir. Hávaði frá hvalaskoðunarskipum geti truflað hvalina.

Gísli Arnór Víkingsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, telur að ummæli líffræðingsins, Sverris Daníels Halldórssonar, hafi verið mistúlkuð. Ekki séu bein tengsl á milli hvalaskoðunar og hvalrekans á Garðskaga og það hafi hann ekki sagt, heldur að það væri eitt að því sem þyrfti að skoða. Því sjái stofnunin ekki ástæðu til að draga ummælin til baka, líkt og Samtök hvalaskoðunarfyrirtækja kröfðust. „Við teljum að umræðan hafi verið óheppileg á köflum með því að spyrða saman þetta tiltekna strand og atgang hvalaskoðunarfyrirtækja. Það tel ég ekki að Sverrir Daníel hafi gert. Hann nefndi ekki bein orsakatengsl heldur nefndi hann að þetta gæti truflað hvalina,“ segir Gísli sem er þeirrar skoðunar að almennt þurfi að rannsaka þessa hegðun hvalanna. 

Samtök hvalaskoðunarfyrirtækja lýsa ánægju með fundinn

Fram kom í fréttum um helgina að Rannveig Grétarsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar og formaður Samtaka hvalaskoðunarfyrirtækja, hafi furðað sig á ummælum líffræðings Hafrannsóknarstofnunar. Samtökin óskuðu því eftir fundinum í dag. Eftir fundinn sagði Rannveig að hann hafi verið góður, þau hafi átt gott spjall um breytta hegðun hvala, rannsóknir og ummæli líffræðingsins. „Það góða sem kemur út úr þessari umræðu er að það hafa allir mikinn áhuga á velferð hvalanna og að umgengni við þá sem eins og best verður á kosið.“ Fjöldi fólks vilji hjálpa þegar hvalir syndi á land en viti ekki hvernig það eigi að bera sig að. Einnig hafi þau rætt að rannsaka þurfi hvort einhverju ætti að breyta í umgengni við hvalina og hvað þurfi yfir höfuð að varast í þeim efnum. 

Ekki víst að skýringa á hvalrekum sé að leita í nútímanum

Gísli bendir á að hvalir hafi komið á land frá upphafi Íslandsbyggðar og sömu sögu sé að segja í Færeyjum. „Það þarf ekki að vera að skýringa sé að leita í nútímanum þó vissulega hafi þetta verið algengt í sumar. Þetta gæti verið tilviljun.“ Þá hafi orðið breytingar á útbreiðslu tegunda og ekki ólíklegt að grindhvalir hafi fært sig norðar vegna hlýnandi sjávar. Slíkt verði að koma í ljós með tímanum, ekki sé hægt að fullyrða neitt af reynslu síðustu tvö árin. 

Fjórar hvalavöður á land í sumar

Fjórar hvalavöður hafa komið á land á Íslandi í sumar. Vöðu var snúið við á Rifi í júlí, 50 grindhvalahræ fundust á Löngufjörum í júli, um þar síðustu helgi voru björgunarsveitir kallaðar út vegna grindhvalavöðu á grunnsævi á Reykjanesi og um síðustu helgi komu um 50 grindhvalir í Garðskagafjöru. 14 þeirra drápust. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi