Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telja tanngreiningar á flóttafólki ósiðlegar

03.02.2020 - 22:42
Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs. - Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Háskóli Íslands á ekki að standa í landamæravörslu fyrir Útlendingastofnun og taka þátt í ferli sem geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir ungt fólk. Þetta segir Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs. Nemendur mótmæla því að háskólinn sjái um aldursgreiningu á ungum flóttamönnum.

Háskóli Íslands gerði eins árs þjónustusamning við Útlendingastofnun í mars í fyrra um að sjá um aldursgreiningu ungmenna sem koma til Íslands og leita hér hælis. Aldursgreining fer meðal annars fram með tanngreiningu.

Nær tvö hundruð starfsmenn og doktorsnemar Háskólans mótmæltu samningnum í fyrra og í dag mótmæltu stúdentar við háskólann. Forseti Stúdentaráðs segir að stúdentar séu í raun að taka undir með mannúðarsamtökum og vísindasamfélögum um allan heim, tanngreiningar séu bæði ósiðlegar og ónákvæmar.

„En umfram það, þá teljum við að Háskóli Íslands eigi ekki að vera í þessari stöðu, þessari landamæravörslu og taka þátt í ferli sem hefur mögulega neikvæð áhrif á málaferlli hælisleitenda, þeirra sem hingað koma í leit að betra lífi. Þetta eru ungmenni, þetta eru börn,“ segir Jóna Þórey.

Síðar í vikunni verður haldinn fundur í Háskólaráði þar sem ákveðið verður hvort samningurinn skuli endurnýjaður. Allir ráðsmeðlimir nema einn samþykktu samninginn í fyrra, en Jóna Þórey vonar að rök og sjónarmið mannúðar hafi náð eyrum ráðsmanna. „Já, ég bind vonir við það og ég vonast til að sjá aðra afstöðu.“

Útlendingastofnun lætur framkvæma tanngreiningu ef vafi leikur á hvort ungmenni sem hingað kemur er eldra eða yngra en 18 ára. Sé ungmenni yngra en 18 ára býðst því vernd, en sé það eldra en 18 ára er heimilt að senda það úr landi.

En hvaða leið á að fara ef tanngreiningu verður hætt? „Það eru aðrar aðferðir sem eru minna skaðlegar, sem notast ekki við skaðlega geisla, það eru sálfræðiviðtöl, það eru aðrar leiðir, og það er auðvitað ekki verið að nota þær, það er hluti af því af hverju við erum svona á móti því að háskólinn taki þátt í þessu.“

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir