Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telja stjórnina sniðganga samráð við heimamenn

26.04.2018 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnhildur Lind Borgarsdóttir
Umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs telur stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs sniðganga samráð við heimamenn og taka vald af svæðisráðum. Þetta kom fram á fundi nefndarinnar í gærkvöld. Nefndin telur Vatnajökulsþjóðgarð vera að fjarlægjast þau markmið sem stofnun þjóðgarðsins hvíldi á í upphafi.

Tilefni gagnrýninnar eru drög að endurskoðaðri stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins. Drögin séu ekki til þess fallin að styrkja ferðamennsku á svæðinu, heldur felist í þeim höft og hindranir. Einnig hafi loforð um að yfirstjórn garðsins hafi aðsetur utan höfuðborgarsvæðisins verið svikið.

Árni Kristinsson, formaður umhverfis- og framkvæmdarnefndar Fljótsdalshéraðs, segir að það hefði verið eðlilegt að stjórnin hefði farið betur yfir málin með hagsmunaaðilum og nærliggjandi sveitarfélögum. Nefndin hafi ekki verið beðin um að gera athugasemdir við áætlunina, eins og vera beri, heldur hafi hún fengið fregnir af áætluninni annar staðar.