Telja sig vita hver ók út í Ölfusá

26.02.2019 - 00:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglan á Selfossi telur sig vita hver var í bílnum sem ekið var út í Ölfusá í kvöld, og að sá aðili hafi verið einn á ferð. Ungmenni urðu vitni að atvikinu og létu lögreglu vita. Umfangsmikil og fjölmenn leit hefur staðið yfir á og við Ölfusá síðan við erfiðar aðstæður, en brak úr bílnum hefur þegar fundist.

„Við teljum okkur hafa staðfestar upplýsingar og ummerki um það að bíl hafi verið ekið út í ána á móts við hótelið á Selfossi og það hefur sést brak úr bíl á floti niður ána, og hluti af því hefur komið á land,“ sagði Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi í samtali við fréttastofu á miðnætti. „Við teljum okkur hafa upplýsingar um að það hafi einn aðili verið í bílnum og aðstandendur viðkomandi hafa verið í sambandi við okkur þannig að þetta er allt að skýrast.“

Fjölmenn leit við erfiðar aðstæður

Um leið og fregnir bárust af atvikinu var kallað út fjölmennt lið viðbragðsaðila frá lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum. „Það er gríðarlegt fjölmenni annað hvort komið til leitar eða á leiðinni á vettvang og það verður leitað áfram í nótt með þeim ráðum sem eru tiltæk,“ segir Oddur.

Hann segir leitarmenn þekkja þetta svæði vel, leitað er á bátum og gengið meðfram árbökkum, auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við leitina. Aðstæður eru hins vegar erfiðar til leitar, dimmt, hvasst og mikil rigning. Spáð er svipuðu og jafnvel verra veðri fram eftir nóttu og aftur í fyrramálið. Enn er þó hægt að vera á bátum á ánni, segir Oddur. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi