Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telja ósamræmi í skýringum á Íslandsför

Mynd: Rúv.is / skjáskot
Hæstiréttur taldi ekki ástæðu til þess að hollenska konan, sem er grunuð um aðild að umfangsmiklu fíkniefnasmygli til Íslands með Norrænu, yrði áfram í gæsluvarðhaldi. Hún hefur verið úrskurðuð í farbann til 21. október. Héraðsdómur Norðurlands eystra var á öndverðum meiði.

Lögreglustjórinn á Austurlandi krafðist þess að konunni yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 21. október. Hún hefur verið í varðhaldi síðan í byrjun september en þá var hún ásamt manni sínum handtekinn eftir að tollverðir fundu um 80 kíló af MDMA-efnum í húsbíl þeirra sem kom með Norrænu.

Héraðsdómur Norðurlands eystra taldi að konan væri undir rökstuddum grun um að tengjast stórfelldu fíkniefnasmygli. Hæstiréttur taldi aftur á móti að ekki væru fyrir hendi rannsóknarhagsmunir til að hafa konuna áfram í gæsluvarðhaldi.

Í greinargerð lögreglustjórans, sem var lögð fyrir héraðsdóm, kemur fram að ekki sé samræmi með framburði mannsins og konunnar um hvert förinni hafi verið heitið. Konan hafi ekki komið með skynsamlegar skýringar á þessu ósamræmi. Þá hafi hún sagt að þau hafi verið í fjárhagskröggum - samt hafi þau ákveðið að fara í dýra Íslandsferð.

Konan hafi heldur ekki getað gefið skýringar á því hvaðan peningar fyrir ferðinni til Íslands hafi komið. Hún sé því undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í innflutningi efnisins.  Fram kemur í greinargerð lögreglustjórans að sendar hafi verið beiðnir til útlanda um rannsókn ákveðinna atriða sem meðal annars beinast að því að upplýsa um þátttöku hennar.

Konan hefur neitað sök í yfirheyrslum og maðurinn hennar hefur sömuleiðis staðhæft að hún hafi ekkert vitað af efnunum. Hann hefur játað sök. Fíkniefnin voru meðal annars falin í 14 niðursuðudósum, varadekki og tveimur gaskútum.