Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telja loftslagsvá geta leitt til pólitískra átaka

ríkislögreglustjóri, húsnæði ríkislögreglustjóra
 Mynd: ruv.is
Afleiðingar loftslagsbreytinga geta aukið þrýsting á Íslendinga um að taka við fleiri flóttamönnum og orðið til þess að djúpstæðar pólitískar deilur rísa um umhverfismál. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningarskýrslu Ríkislögreglustjóra.

Embætti Ríkislögreglustjóra birti í gær greiningarskýrslu um umhverfi löggæslu á Íslandi til næstu fimm ára.

Í skýrslunni er reynt að varpa ljósi á samfélagsógnir og áskoranir á næstu árum. Þar er meðal annars fjallað um loftslagsbreytingar. Í skýrslunni segir að líkur séu á því að álag aukist á landamæri Íslands vegna samfélagslegra afleiðinga loftslagsbreytinga í þeim löndum þaðan sem flestir flóttamenn koma. Þannig geti umsóknum um alþjóðlega vernd fjölgað og þrýstingur vaxið á að Íslendingar taki að sér fleiri flóttamenn með milligöngu alþjóðastofnana. Samkvæmt þessu verða áhrif loftslagsbreytinga hérlendis einkum óbein og félagsleg næstu fimm árin.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra telur líkur á að loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim geti skapað djúpstæðar pólitískar deilur víða á Vesturlöndum á næstu árum og trúlega einnig hér á landi. Þannig geti hugmyndafræðileg átök sem tengjast umhverfisvernd og loftslagsbreytingum blossað upp á Vesturlöndum með litlum fyrirvara. Slík ólga kunni að reynast vaxandi áskorun fyrir lögregluna.