Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Telja frumvarp ótímabært

26.02.2011 - 13:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Frumvarp um staðgöngumæðrun er ótímabært að mati nær allra sem skilað hafa inn umsögn um málið til heilbrigðisnefndar Alþingis. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar segir nauðsynlegt að setja lög um þessi úrræði sem margir séu nú þegar að nýta sér.

Nær allir sem skilað hafa inn umsögn um frumvarp um staðgöngumæðrun lýsa andstöðu við þessi áform - á þeim séu siðferðilegir annmarkar, auk þess sem umræðan sé ekki komin nógu langt. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar segir nauðsynlegt að setja lög um þessi úrræði; margir séu þegar að fara í kringum lög og reglur til að nýta sér þetta úrræði.


Fréttablaðið greinir frá því í morgun að þrettán af þeim fimmtán sem skilað hafa inn umsögnum um málið séu því andvígir - það sem um ræðir er þingályktunartillaga átján þingmanna um að Alþingi skipi starfshóp til að undirbúa frumvarp til laga um staðgöngumæðrun. Frumvarpið eigi að leggja fram um þarnæstu mánaðarmót. Mótbárurnar eru meðal annars þær, að umræðan hér á landi um þessi mál hafi ekki staðið nógu lengi. Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður, er fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu. Hún segir eðlilegt að umræðan um þessi mál verði ekki almenn; hún snerti afmarkaðan hóp fólks.


Ragnheiður segir að í kjölfar máls litla drengsins á Indlandi, hafi umræðan ánægjulega orðið miklu meiri en hún hafi nokkurn tímann þorað að vona. Hún segist vera ósammála því að umræðan hafi ekki náð að þroskast hér á landi, og bendir á að í tillögum þingmannahópsins felist afar ströng skilyrði sem eigi að girða fyrir mörg af þeim siðferðislegu álitamálum sem fram koma í umsögnum um málið.


Hún segir í raun nauðsynlegt að koma á lögum um þessi úrræði. Staðreyndin sé sú, að það séu íslenskir einstaklingar og pör að stunda þetta í dag, og hafa gert um margra ára skeið. Hún viti dæmi um að fólk sé að fara í kringum þessi lög með mikilli fyrirhöfn, til að mynda að íslensk hjón séu að íhuga sambúðarslit svo að konan geti tekið saman við aðra konu á pappírum, til þess að þær geti farið í gegnum staðgöngumæðrun hér. Tæknilega sé það heimilt að lesbískar konur í sambúð geti gengið með barn hvor fyrir aðra.