Telja flugskeyti hafa grandað úkraínsku þotunni

09.01.2020 - 17:39
CORRECTS YEAR - Debris is seen from a plane crash on the outskirts of Tehran, Iran, Wednesday, Jan. 8, 2020. A Ukrainian airplane carrying at least 170 people crashed on Wednesday shortly after takeoff from Tehran’s main airport, killing all onboard, state TV reported. (AP Photos/Mohammad Nasiri)
 Mynd: AP
Bandarískir embættismenn telja að íranskt flugskeyti hafi grandað úkraínsku farþegaþotunni sem fórst í Íran í fyrrinótt, nokkru eftir að flugskeytum var skotið þaðan á herstöðvar í Írak. Forsætisráðherra Bretlands krefst ítarlegrar rannsóknar á flugslysinu.

Fréttastofa CBS hafði síðdegis eftir heimildarmönnum sínum í bandarísku leyniþjónustunni að gervihnöttur hafi um nóttina numið tvo innrauða depla sem bentu til þess að flugskeytum hafi verið skotið á loft. Nokkru síðar hafi sést annar depill sem bendi til þess að sprenging hafi orðið. Donald Trump forseti tjáði sig sömuleiðis um málið og kvaðst hafa sínar grunsemdir um að einhver hafi gert mistök með þeim afleiðingum að þotan var skotin niður. Með henni fórust 176 manns.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fór í dag fram á ítarlega, trúverðuga og opinskáa rannsókn á flugslysinu í fyrrinótt. Hann ræddi í dag í síma við Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, og vottaði honum samúð vegna slyssins. Forsætisráðherrann lýsti yfir áhyggjum af málinu, einkum vegna þess að yfirmaður öryggis- og varnarmála í Úkraínu sagði í dag að rannsaka yrði það vandlega, meðal annars hvort flugskeyti hefði grandað þotunni. Hún fórst nokkru eftir að Íranar gerðu flugskeytaárás á tvær herstöðvar í Írak þar sem herlið Bandaríkjamanna og annarra Atlantshafsbandalagsríkja hélt til. Árásirnar voru gerðar í hefndarskyni fyrir að íranski hershöfðinginn Qasem Soleimani var tekinn af lífi í drónaárás Bandaríkjahers í síðustu viku. 

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV