Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telja Báru hafa gefið færi á lögsókn

07.12.2018 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögfræðingar sem fréttastofa hefur rætt við segja að Bára Halldórsdóttir hafi gefið færi á lögsókn gegn sér vegna upptakanna sem hún gerði af samtali sex þingmanna á barnum Klaustur 20. nóvember síðastliðinn. Lögfræðingarnir telja að um brot á persónuverdarlögum hafi verið að ræða þegar upptakan var gerð. Málið er til skoðunar hjá Persónuvernd.

Stundin birti viðtal við Báru í dag þar sem hún viðurkennir að hafa tekið upp samtal þingmannanna þegar þeir sátu að sumbli. Þar voru Miðflokksfólkið Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, auk Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar þingmanna Flokks fólksins.

Bára segist í Stundinni hafa verið stödd á barnum fyrir tilviljun þegar þingmennirnir gengu inn og ekki gefið þeim mikinn gaum þar sem þeir sátu við borð í horni veitingahússins. Henni hafi hins vegar ekki staðið á sama þegar hún heyrði hvernig lá á þeim og hvað þau sögðu. Þá hafi hún gripið til þess ráðs að kveikja á upptökutæki í snjallsíma sínum.

Halldóra Þorsteinsdóttir er einn þeirra lögfræðinga sem fréttastofa hefur rætt við vegna þess máls. Hún er lektor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur í fjölmiðlarétti. „Já, auðvitað gerir hún það,“ segir Halldóra þegar hún er spurð hvort hvort Bára hafi skapað sér hættu á að fá á sig lögsókn vegna viðtalsins sem hún veitti Stundinni í dag. Hún segir að almennt ríki vernd yfir heimildarmönnum og uppljóstrurum fjölmiðla en hún hafi fyrirgert slíkum rétti með því að stíga fram undir nafni. Stígi uppljóstrar fram geti fjölmiðlarnir ekki lengur verndað heimildamenn sína.

„Grundvallarreglan er sú að öllum er bannað að taka upp samtöl annarra án þeirra vitundar,“ bendir Halldóra á í samtali við fréttastofu. Um það sé ákvæði í persónuverndarlögum og hegningalögum. Friðhelgi einkalífs sé einnig tryggð í stjórnarskrá. Sérstakar aðstæður gætu hins vegar verið til staðar þar sem það er talið þjóna almannahagsmunum að upptökur sem þessar séu birtar í fjölmiðlum. Það sé álitamál hvort það eigi við í þessu tilfelli, enda eru þarna á ferð þjóðkjörnir einstaklingar sem eigi sæti á Alþingi.

„Venjulega hefði maður bara sagt að fjölmiðlar hafi þetta hlutverk að vera gæslumenn almannahagsmuna, en ekki einstaklingar. Það má segja að það hlutverk réttlæti bitingu svona upptaka,“ segir Halldóra. „Það horfir öðruvísi við þegar einstaklingur á í hlut. Einstaklingar hafa ekki það hlutverk að gæta almannahagsmuna. Hún [Bára] skapar sér þarna hættu,“ segir Halldóra.

Samkvæmt upplýsingum frá Persónuvernd þá eru nýjustu vendingar málsins nú til skoðunar hjá stofnuninni og ótímabært að segja af eða á um hvort það verði tekið formlega til rannsóknar. Málið sé á viðkvæmu stigi. Fregna sé hins vegar að vænta af framvindu málsins eftir helgi.

Aðrir lögfræðingar sem fréttastofa ræddi við, en vildu ekki tjá sig undir nafni, nefndu að engin dómafordæmi séu um mál af þessu tagi og að það væri alltaf í höndum dómaranna að taka afstöðu til málsins. Allt málið yrði þar undir, enda sé það lykilspurning hvort upplýsingarnar sem þarna koma fram eigi erindi við almenning.