Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja að Sigríður Andersen hljóti að víkja

12.03.2019 - 10:00
Mynd:  / 
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis, segjast ekki trúa öðru en að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hljóti að víkja eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var kveðinn upp í morgun. „Mér er ekki skemmt,“ segir Helga Vala og kallar málið algjört klúður af hálfu stjórnvalda.

Dómaraskipun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í Landsrétt braut gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Íslenska ríkið var dæmt til að greiða um 15 þúsund evrur eða rúmlega tvær milljónir króna í málskostnað. Tveir dómarar skiluðu sameiginlegu sératkvæði og segja að með dómnum sé skotið langt yfir markið.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að dómurinn sé slæmur fyrir trúverðugleika stjórnvalda en þetta hafi verið eitthvað sem búast mátti við. „Það er auðvitað alvarlegt ef fólk getur ekki treyst því að það njóti réttlátrar málsmeðferðar.“ Þegar borið hafi verið upp vantraust á dómsmálaráðherra í mars í fyrra hafi það verið vegna þess að þingmenn hafi talið að skipan hennar hefði komið Íslandi í ógöngur. Logi segist ekki vita hver réttaráhrif þessa verði, sumir telji að Landsréttur sé óstarfhæfur.

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar Alþingis, segir að niðurstaðan komi sér ekki á óvart. „Maður vonaði það í sakleysi sínu að niðurstaðan yrði öðruvísi.“ Hún segir að dómurinn sé mikill skellur fyrir dómsmálaráðherra þar sem hún hafi ekki farið að ráðum sérfræðinga. Þá bendir Helga Vala á að Alþingi hafi heldur ekki farið að lögum með því að greiða atkvæði um alla fimmtán dómarana í einu. „En það er dómsmálaráðherra sem ber hérna ábyrgð með öllu því sem hún gerir, með því að taka inn þessa fjóra dómara og fara gegn ráðum sérfræðinga sem sögðu að hún gæti ekki gert þetta.“

Helga Vala segist ekki trúa öðru en að Sigríður segi af sér í dag. „Embættið er miklu stærra en hún. Það er ekki bara undirstofnun sem tók þessa ákvörðun heldur er þetta hún sjálf sem gerir það. Hún getur ekki skýlt sér á bak við neitt annað. Hún ber ábyrgð á þessu og við sjáum ekki fyrir hvað þetta mun kosta okkur miklar fjárhæðir.“

Mynd með færslu
 Mynd: