Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telja að ferli við eldisleyfi etji fólki saman

04.12.2017 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Oddviti Djúpavogshrepps telur að gera þurfi betur í því að vega og meta ólíka hagsmuni áður en laxeldisleyfi eru gefin út. Gera þyrfti eina nýtingaráætlun sem tæki til veiða, landeigenda og fiskeldis. Ferðaþjónustubóndi í Berufirði telur að ferlið sem notað er við útgáfu fiskeldisleyfa sé til þess fallið að etja fólki saman. Nauðsynlegt sé að sveitarfélög fái skipulagsvald yfir fjörðum og geti orðið einskonar milligöngumaður.

Fiskeldi Austfjarða sækist eftir stærri laxeldisleyfum meðal annars í Berufirði en laxinum er slátrað á Djúpavogi og hann unninn þar. Nýverið rann út frestur til að gera athugasemdir við frummatsskýrslu fyrirtækisins um stækkun á leyfum í Berufirði úr 8 þúsund tonnum í 10 þúsund tonn.

43 athugasemdir bárust meðal annars frá Andrési Skúlasyni oddvita Djúpavogshrepps. Í hreppnum eru skiptar skoðanir um fiskeldið; sumir fagna aukinni atvinnu á meðan aðrir hafa áhyggjur af áhrifum á lífríkið í firðinum og sjónmengun. Andrés telur að enn hafi ekki verið sköpuð sú umgjörð um fiskeldi og eldisleyfi sem tryggi faglega niðurstöðu. Skipuleggja þyrfti firði í samráði við alla sem nýta þá og gera sérstaka nýtingaráætlun. „Það er ekki leiðin til sátta að einn aðili setji fram stórfelld áform og svo þurfi aðrir bara að verja sig. Leiðin til sátta er að mínu mati sú að það fái allir hagsmunaaðilar að koma að borðinu strax í upphafi sem eru að nýta firðina. Bæði sjómenn, landeigendur og aðrir þeir sem hafa hagsmuni að þeir fái að koma strax að borðinu,“ segir Andrés. Hann bendir á að enn eigi eftir að rannsaka lífríki Berufjarðar; meðal annars þekktar hrygningarstöðvar.

Það eru ekki síst ferðaþjónustubændur í Berufirði sem óttast að lítið verði gert úr hagsmunum þeirra í ferlinu. Í athugasemdum lýsa þeir áhyggjum af sjónmengun frá stöðum þar sem fyrirtækið vill hafa ný eldissvæði í firðinum. Berglind Häsler bóndi á Karlsstöðum, telur að ferðaþjónustan hefði þurft að vera með í ráðum. „Það var bara ekkert samráð. Okkur er gefinn þessi kostur að senda inn athugasemdir en það er ekkert samtal. Við erum ekkert fengin að borðinu. Mér finnst svolítið eins og það sé verið að etja fólki saman og mér finnst að það þyrfti að vera meira samráð. Sveitarfélögin eigi að vera með skipulagsvald yfir fjörðunum. Ef sveitarfélagið er með slík völd þá getur það tekið inn fleiri þætti og er þá einhverskonar milligönguaðili á milli allra þessara stofnana sem koma að þessu máli. Að sveitarfélagið hafi ekkert um þetta að segja er bara stórfurðulegt.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV