Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Tel mig ekki eiga samleið með flokknum“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RUV
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins og flugvallarvina, ætlar að segja sig úr Framsóknarflokknum í dag. „Fyrir því eru nokkrar ástæður. Ég tel mig ekki eiga samleið með flokki sem hefur ekki kjark til að ræða þau mál sem brenna á borgarbúum,“ segir Sveinbjörg í viðtali við fréttastofu RÚV. Hún kveðst þar aðallega vera að vísa til þeirrar gagnrýni á ummæli hennar um „sokkinn kostnað“ grunnskóla sem taka á móti börnum sem eru í leit að alþjóðlegri vernd.

Sveinbjörg lét ummælin falla í viðtali á Útvarpi Sögu og voru strax fordæmd af fólki í forystu Framsóknarflokksins.  „Það er mitt álit að kjörinn fulltrúi á auðvitað ekki að tala  um aðstoð við börn sem sokkinn kostnað. Það eru umæli sem ganga ekki upp hjá kjörnum fulltrúa,“ sagði Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina.

Ungir Framsóknarmenn í Reykjavík lýstu yfir vantrausti á Sveinbjörgu og töldu hugmyndir hennar ganga í berhögg við stefnu flokksins. „Þetta voru klaufsk og óheppileg ummæli sem maður notar ekki um börn, stefna Framsóknarflokksins er mjög skýr,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.

Sveinbjörg hafði orð á því í viðtalinu við Útvarp Sögu hversu mikill kostnaður fylgdi því fyrir grunnskólana að taka á móti börnum sem væru í leit að alþjóðlegri vernd. Börnin væru farin fljótlega, eftir 6 mánuði til tvö ár. Og þegar búið væri að vísa fjölskyldunum úr landi væri þetta að einhverju leyti sokkinn kostnaður.

Hægt er að horfa á viðtal við Sveinbjörgu í spilaranum hér að ofan.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV