Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tekur við kyndlinum sem tenging við umheiminn

Mynd: RÚV / RÚV

Tekur við kyndlinum sem tenging við umheiminn

19.04.2017 - 20:15

Höfundar

Hús sem gert er í nafni Vigdísar Finnbogadóttur verður að vera góður granni, segir Kristján Garðarsson, hönnunarstjóri vinningstillögunnar að húsi stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, sem opnað verður við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta. 

Vígsla hússins verður í beinni útsendingu hér á RÚV.is og hefst hún klukkan 15.00.

Alls bárust 43 tillögur í hönnunarsamkeppni um hús stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Úrslitin voru kunngjörð í maí 2012 og sagði í umsögn dómnefndar að vinningstillagan væri snjöll og öguð og gæfi fyrirheit um kraftmikla og líflega starfsemi. Fimm árum síðar er húsið risið og fékk nafn í gær: Veröld – hús Vigdísar.

Bygging sem faðmar málefnið

Vigdís segir að því hafi fylgt góð tilfinning að koma inn í bygginguna í fyrsta sinn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Það er auðvitað alveg stórkostleg tilfinning. Húsið er svo fallegt, það er alveg einstakt, og ekki þykir mér verra að það er rammi utan um tungumál heimsins. Þegar ég sá teikninguna þá rann ég eins og hind í vatn af því að mér fannst hún faðma málefnið. Mér fannst hún faðma það verk sem við ætlum að vinna með því að gera hér tungumálasetur.“

Lyftu Loftskeytahúsinu á stall

Hönnuðir vinningstillögunnar er arkitektastofan Arkitektúr.is. Kristján Garðarson, hönnunarstjóri teymisins, segir að strax í upphafi fengið innblástur frá Loftskeytahúsinu á lóðinni við hliðina.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Garðarsson

„Nándin við sjálfa lofskeytastöðina, sem var á sínum tíma fyrsta alvöru tengingin við útlönd, virkaði sterkt á okkur og við hugsuðum að þetta gæti farið halloka í sambýli við nýtt og stórt hús,“ segir Kristján. „Það má segja að það hafi verið fyrsti útgangspunktur okkar hafi verið að grafa frá Loftskeytahúsinu með því búa til hringleikahús sunnan við húsið. Þannig gátum við lyft loftskeytastöðinni á stall. Það má því segja að nýja húsið taki þá við kyndlinum sem tengin við umheiminn með því að kenna erlend tungumál og samskipti við umheiminn.“

Stigarnir tengja eins og tungumálið

Það fyrsta sem blasir við þegar inn er komið er voldugur stigi sem liðast um rýmið. „Þegar inn er komið reynum við halda áfram með þessar tengingar og tungumálin,“ segir Kristján. „Við látum allt hverfast um miðjuna. Starfsemi hússins, sem er á öllum hæðum, reynir að tengja sig inn á við þannig að allir tengist saman, dálítið eins og tungumálin tengja okkur saman. Þess vegna hlykkjast stigarnir um húsið og reyna að ná fólki saman um miðjuna.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Miðpunkturinn í húsinu er fyrirlestrarsalurinn á jarðhæðinni. „Tengigangurinn frá háskólatorgi kemur að salnum, veitingasalan á neðstu hæð sem tengist út á torgið er við salinn. Það má segja að öll starfsemi hússins á hæðunum tengist öll salnum á sjónrænan hátt. Hann er líka í sterkum lit og virkar utan frá sem miðpunkturinn eða hjartað í húsinu.“  

Lerki sem minnir á skógræktarstarf Vigdísar

Kristján segir að hönnuðurnir hafi náð að halda húsinu tiltölulega nettu með því að grafa stór rými niður í landið.

„Húsið er því ekki mikið um sig og vinsamlegt umhverfinu. Til að skapa mjúka ásýnd þá ákváðum við að nota lerkiklæðningu, sem hefur líka tengingu við frú Vigdísi og hennar starf í þágu skógræktar. Hér er verið að vinna með lerki úr íslenskum nytjaskógi og okkur fannst mikilvægt að koma því fýsískt á húsið.

Menningin í Kastljósi skoðaði bygginguna að innan sem utan og ræddi við þau Kristján og Vigdísi. Horfa má á innslagið hér að ofan.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Veröld, hús Vigdísar er fallegur staður

Menningarefni

Nýja húsið á að heita Veröld, hús Vigdísar

Menningarefni

Framkvæmdir við hús Vigdísar hefjast brátt