Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tekur Ham með sér til Feneyja

Mynd: Aðsend mynd. / RÚV

Tekur Ham með sér til Feneyja

04.06.2018 - 19:51

Höfundar

„Ég er óskaplega glöð með þetta. Þetta er eins og að komast á ólympíuleikana í myndlist. Og íslenski skálinn vekur alltaf athygli og ég ætla ekkert að hafa það öðruvísi,“ segir Hrafnhildur Arnardóttir myndlistarmaður sem í dag var valin fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum á næsta ári. Hún ætlar að taka hljómsveitina HAM með sér til Feneyja.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar bárust 17 tillögur að sýningum sem gætu farið fyrir Íslands hönd á þessa virtustu samtímalistasýningu í heimi. Svo fór að Hrafnhildur Arnardóttir sem er einnig þekkt sem Shoplifter, varð fyrir valinu. Hrafnhildur er búsett í New York og hefur á undanförnum 15 árum kannað notkun og táknrænt eðli hárs, og sjónræna og listræna möguleika þess. Verkið sem hún ætlar að sýna er stór og víðtæk innsetning sem reynir á öll skynfærin. 
 
„Og ég ætla að gera þetta þannig að fólk kemur inn í skálann sem er töluvert stór og þú sérð aldrei bygginguna innan frá. Þú verður umlukinn hári, þetta verður svona dropasteinshellir úr hári.“ 

Hrafnhildur hefur fengið hljómsveitina Ham til þess að semja tónverk fyrir innsetninguna, sem verður spilað stöðugt. „Þeir hafa bjargað mér í gegnum marga lokaspretti þegar ég er að klára stórar sýningar eða að klára verk og er alveg að fá hárið upp í kok. Þá set ég Ham á og fæ kraftinn til þess að klára þetta,“ segir Hrafnhildur.

Hér má sjá ítarlegra viðtal við Hrafnhildi. - Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Tengdar fréttir

Myndlist

Hrafnhildur valin á Feneyjatvíæringinn