Tekur ekki persónurnar með sér á koddann

Mynd: RÚV / RÚV

Tekur ekki persónurnar með sér á koddann

14.01.2020 - 12:09

Höfundar

Leikritið um Vanja frænda eftir Anton Tsjékhov var frumsýnt um helgina í Borgarleikhúsinu en Brynhildur Guðjónsdóttir leikstjóri hefur verið vakin og sofin yfir sýningunni undanfarna daga. „Ég vil helga mig leikhúsinu, þar vil ég vera,“ segir Brynhildur sem var gestur Viðars Eggertssonar í Segðu mér.

Í Vanja frænda er fjallað um firringu borgarastéttarinnar í Rússlandi en verkið var frumsýnt 1890. „Þau eru öll að tala um óhamingju sína en samt hafa þau allt. Þetta er fólk af millistétt, þetta erum við í dag,“ segir Brynhildur. „Við höfum allt til alls en samt erum við öll að barma okkur hvað allt sé ómögulegt. Við borðum aðeins of mikið konfekt um jólin og þá þarf að fara á ketó. Við elskum einhvern sem vill ekki elska okkur til baka.“ Hún segir að Tsjékhov hafi verið meistari í að skrifa um flækjur þar sem ekkert flókið er til staðar. „Þetta er búið að vera svakalega skemmtilegt ferðalag, og gaman að sjá að maður getur fundið sjálfan sig í hverri einustu persónu, ég hugsaði bara já, já, ég hef verið þau öll.“

Hætti eftir 99 sýningar

Brynhildur hefur löngum verið ein ástsælasta leikkona þjóðarinnar og hún söng sig svo sannarlega inn í sál hennar í hlutverki frönsku söng- og bóhemkonunnar Edithar Piaf. Brynhildur lærði frönsku og bjó um hríð í Frakklandi en hún segist sjálf ekki hafa tengt mikið við persónuna. „Hún var mjög ólík mér á allan hátt. Þetta var drykkfelld, brotthætt manneskja sem átti marga eiginmenn og var kannski svolítið ástsjúk.“ Hún segist ekki umbreytast í persónur sínar þegar hún tekur að sér hlutverk. „Ég sem leikkona stíg ekki inn í persónurnar og hugsa „Nú er ég þessi.“ Farvegurinn er bara að reyna að samsama og gefa. Og svo fer ég heim til mín og tek ekkert af því með mér að eldhúsborðinu mínu eða á koddann.“

Úr uppsetningu Borgarleikhússins á Vanja frænda 2020.
 Mynd: Borgarleikhúsið
Valur Freyr Einarsson er í hlutverki Vanja frænda.

Eitt atvik er henni sérstaklega minnisstætt þegar það kviknaði í í Þjóðleikhúsinu í hléi. „Baldur Trausti Hreinsson leikari hendir utan um mig stórum mokkajakka og við förum öll fram fyrir hús þar sem gestirnar standa í tröppunum. Strákarnir fara með öll hljóðfærin sín og svo byrja þeir bara að spila og úr varð hin ótrúlegasta samverustund þarna úti á stétt. Svo kom slökkviliðið og reykræsti og við héldum bara áfram þar sem frá var horfið. Þarna var svona leikhús lífsins.“

Sýningin um Edith Piaf gekk fyrir fullu húsi í tvö ár en ákveðið var að hætta í 99 sýningum. En við hefðum alveg getað haldið áfram eitt leikár í viðbót. En svo söng ég þetta þangað til í hittifyrra og þá hugsaði ég nú er þetta komið gott. Ég var komin með alveg nóg af sjálfri mér að syngja þetta.“ Þá fer hún út í að skrifa sögu Brákar, fóstru Egil Skallagrímssonar, sem aðeins er talað um í ellefu línum í Egils-sögu. „Mér fannst í lófa lagið að halda sögunni áfram og skoða kvenlegu hliðina. Þetta hef ég reynt að gera í mínu höfundarverki sem sviðslistakona, að lyfta sterkum konum. Þorgerður Brák er óræð manneskja sem 11 línur eru ritaðar um en þetta er sú manneskja sem fóstraði mesta skáld víkingatímans, og gaf berserknum (og fjöldamorðingjanum) Agli Skallagrímssyni farveg í orðum og ljóðagerð. Þetta langaði mig til að skoða.“

Þurfti að fara til að koma aftur

Hún segist mjög stolt af verkinu sem hún tók sér hlé frá þegar hún fór til Bandaríkjanna að læra leikritun, en hú gæti vel hugsað sér að taka Brák upp aftur. „Ég þurfti að fara út á þessum tíma. Ég þarf stundum að fara til að geta komið aftur. Þarna var komið fram yfir sjö ára tímabil og ég þurfti nýjan slátt, nýtt súrefni, tala við annað fólk og fara út fyrir landssteinana.“ Þegar hún kom til baka fór hún á nýjar lendur, var dramatúrg í Borgaleikhúsinu og ritaði leikgerðina að Ríkharði þriðja sem hún svo leikstýrði. Henni hafði áður boðist að leikstýra hjá stóru leikhúsunum en það voru ekki réttu verkin fyrir hana. „Mig langaði ekki að leikstýra bara til að leikstýra. Ég þurfti að segja sögu sem ég skyldi. Svo þegar tilkynnt var að Ríkharður þriðji yrði tekinn fyrir þá vildi ég segja þá sögu.“

Mynd með færslu
 Mynd: borgarleikhus.is
Fyrir Brynhildi skiptir mestu máli að hlusta á Chekhov, meistara óræðninnar.

Ríkharður þriðji fékk gríðar góðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda og rakaði inn Grímuverðlaunum í vor. Síðasta sýningin var fyrir jól en í kjölfarið tekst hún á við aðra stóra klassík, Vanja frænda eftir Tsjékhov. „Það passar svo ofboðslega vel inn í nútímasamfélag.“ Brynhildur hrósar nýrri þýðingu Gunnars Þorra Péturssonar í hástert og segir hann fara ferskum höndum „um þennan meistara óræðninnar, einhvers sem virðist vera svo lítið á blaðinu en er svo gríðarstórt; mannsandinn.“ Hún segir megintakmark sitt með uppsetningunni að þjóna Tsjékhov af auðmýkt. „Hlusta á það sem hann er að segja, ekki setja fingrafar mitt á verkið. Tsjékhov lætur ekki sjá sig ef við krefjum hann um það. Það er mjög auðvelt að drepa Chekhov ef maður krefst einhvers af honum. En ef við reynum að hlusta á hann og þjóna því sem hann vill þá lyftast töfrarnir upp af blaðinu og við sjáum fegurðina í því að vera manneskja; dýrðina í því agnarsmáa, hjarta sem slær, húð sem hitnar og svitnar, sjáöldrum sem þenjast.“

List augnabliksins

Brynhildur er sviðslistamanneskja í húð og hár og hefur ekki sóst eftir að leika í kvikmyndum eða sjónvarpi. „Ég vil helga mig leikhúsinu, þar vil ég vera. Ég ætla að halda áfram að vera sviðshöfundur, gera leikgerðir, leikstýra, segja sögur og þjóna sviðslitinni, list augnabliksins sem er dásamleg og þörf.“ Brynhildur segir að breytingar séu í vændum hjá sér sem hún geti samt ekki sagt frá eins og stendur. „Ég er leiðinni svolítið. Það kemur í ljós. Ég er allavega ekki á leiðinni aftur á bak,“ segir hún sposk að lokum.

Viðar Eggertsson ræddi við Brynhildi Guðjónsdóttur í Segðu mér. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Leiklist

Að geta hlegið að harminum og grátið með sprellinu

Leiklist

„Af hverju var ég ekki bara heima hjá mér?“

Leiklist

Eyðileggur verkið og límir svo saman aftur

Leiklist

„Ég var berháttaður þarna í Borgarleikhúsinu“