Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tekur á brottkasti og framhjálöndun

12.12.2017 - 19:00
Mynd: RÚV / RÚV
Gerð verður sérstök úttekt á Fiskistofu á nýju ári og frumvarp lagt fram sem á að taka á brottkasti og framhjálöndun, segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra. Komi upp mál sem snerti Samherja sérstaklega, muni hann meta hæfi sitt hverju sinni.

Í lok nóvember fjallaði fréttaskýringaþátturinn Kveikur um brottkast, framhjálöndun og vanmátt Fiskistofu til að framfylgja lögum. Nýr sjávarútvegsráðherra hyggst gera úrbætur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Myndbönd sem Kveikur birti í nóvember sýna brottkast.

„Það finnst mér raunar alveg með ólíkindum ef að regluverkið er með þeim hætti að stofnunin geti ekki sinnt sínu lögskipaða hlutverki. Það liggur fyrir að ráðuneytið mun gera úttekt á Fiskistofu á næsta ári og fara í gegnum það hvernig hún vinnur sín störf,“ segir Kristján Þór.

Fiskistofustjóri hefur sagt útilokað að fylgjast með vigtun á afla og sjómenn hafa einnig gagnrýnt endurvigtunarkerfið harðlega.

Úlfar Hauksson sjómaður segir vitað mál að brottkast sé stunda. „Það er náttúrulega vitað mál að þetta eru töluverðar upphæðir og þetta er töluvert magn sem fer svona framhjá vigt. Ég held að það sé eiginlega bara ágætt að fólk fari að viðurkenna þetta í stað þess að mótmæla og hjóla alltaf í sendiboðana. Það vita þetta allir,“ segir hann.

Kristján segir að von sé á frumvarpi um þessi mál á vorþingi. 

„Þetta er bara nákvæmlega það sama og Fiskistofa hefur sagt og borið upp eftir þeirra athuganir hér innan lands og er í rauninni ástæðan fyrir því að við erum að boða það að við komum fram með frumvarp á vorþinginu sem ætlað er, meðal annars að taka á agnúum sem þessum,“ segir hann. 

Kristján Þór birti færslu á Facebooksíðu sinni í dag, þar sem hann rekur meðal annars tengsl sín við Samherja, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins. Eru þar mögulegir hagsmunaárekstrar?

„Nei, ég hef ekki ástæðu til að ætla það á þessari stundu. En ef að slíkt tilvik kemur upp, þá skoðar maður það, að sjálfsögðu.“