Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tékkland: Ljón drap eiganda sinn

05.03.2019 - 13:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Níu ára karlljón varð eiganda sínum að bana í dag í þorpinu Zdechov í austurhluta Tékklands. Maðurinn hélt tvö ljón á heimili sínu án tilskilinna leyfa, karlljónið og tveggja ára ljónynju. Þau hafði hann í viðbyggingu viðbyggingu sem hann hafði reist í leyfisleysi.

Faðir ljóneigandans tilkynnti lögreglu snemma í morgun að eitthvað hefði komið fyrir son sinn. Á eftirlitsmyndavél sæist hann hreyfingarlaus í ljónahúsinu. Lögregla kom á staðinn og skaut ljónin umsvifalaust til bana.

Tékkneska lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu. Í ljós er komið að maðurinn eignaðist karlljónið árið 2016 og ljónynjuna í fyrra. Að sögn tékkneskra fjölmiðla höfðu íbúar  Zdechov áhyggjur af veru ljónanna í þorpinu. Ljónynjan réðst í fyrra á hjólreiðamann, þegar hún var á göngu í taumi með eigandanum.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV