Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tekjur af Airbnb 17,5 milljarðar í fyrra

31.03.2019 - 10:32
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Tekjur af Airbnb og álíka síðum var 17,5 milljarðar í fyrra. Það er 19 prósent meira en 2017 þegar tekjurnar voru 14,7 milljarðar króna. TIl samanburðar var virðisaukaskattskyld velta vegna Airbnb árið 2014 var rúmir 2,5 milljarðar. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar og byggja tölurnar á skilum á virðisaukaskatti.

Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ber þeim sem kaupa rafræna þjónustu sem nýtt er hér á landi að greiða virðisaukaskatt af henni. Erlendum aðilum, eins og Airbnb, sem selja þjónustu hér á landi, ber að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti hér á landi.   

1% aukning milli ára

Gistinætur erlendra ferðamanna á gististöðum hér á landi voru tæplega 10,4 milljónir í fyrra, samanborið við 10,3 milljónir árið 2017. Aukningin á milli ára nam 1,1 prósenti, að því er fram kemur í samantekt Hagstofunnar. 5,1 prósents aukning var á hótelum og gistiheimilum en 10,2 prósenta samdráttur á tjaldsvæðum og 3,3 prósenta samdráttur á stöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður.

Mest aukning gistinótta á Suðurlandi

Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum í heildina mest, um 8,6 prósent. Á Vestfjörðum var samdrátturinn 8,1 prósent. Sé aðeins litið til gistingar á hótelum og gistiheimilum og í gegnum síður eins og Airbnb var aukningin mest á Vesturlandi, 24,3 prósent á hótelum og gistiheimilum og 18,6 prósent hjá Airbnb.

Mynd með færslu
Þróun fjölda gistinótta frá 2017 til 2018, úr samantekt Hagstofunnar. Mynd: www.hagstofa.is

 

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru samtals um 5,9 milljónir í fyrra en tæp ein milljón á tjaldsvæðum. Gistinætur í annars konar gistingu voru um 1,7 milljón og um 1,8 milljón í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Gistinætur erlendra ferðamanna í bílum utan tjaldsvæða voru 270.000 í fyrra og um 194.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir