Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tekist á við tabúin og rótað í forminu

Mynd:  / 

Tekist á við tabúin og rótað í forminu

12.12.2018 - 17:43

Höfundar

„Með öllum sínum flækjum, líkamlegum, andlegum, pólitískum er hán eitthvað sem við höfum ekki áður séð í íslenskum bókmenntum,“ segir Gauti Kristmannsson um titilpersónu Hans Blævar, eftir Eirík Örn Norðdahl.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Það er tekist á við tabúin í þessari sögu um Hans Blæ, intersex manneskju, transmann og hneykslunarhellu í fyrsta flokki, nettröll sem vinnur meðvitað með það á ýmsum miðlum í því skyni að ganga fram af vinstri sinnuðum smáborgurum og góða fólkinu, eins og sumir svipaðir sem helst má finna á Moggablogginu. Þeir síðastnefndu eru þó amatörar við hliðina á Hans Blæ sem hefur gert þetta að listgrein, enda kemur hán úr töluvert annarri átt.

Bygging sögunnar er bæði einföld og flókin; ramminn er í raun krimmi, sagður frá sjónarhorni glæpamanns sem er á flótta undan réttvísinni, en frásagnarhátturinn er það frumlegasta við þessa bók. Þetta er í raun fyrstu persónu saga, sögð í þriðju persónu, nema þegar fjallað er um móður Hans Blæs eða Blævar, eða jafnvel Blævis eins og höfundur á til að beygja nafnið; þá er frásögnin í annarri persónu eins og ávarp til móðurinnar og notar sögumaður þéringar, kannski til að undirstrika fjarlægð eða fyrirlitningu, sem þó, eins og annað í þessari bók er aldrei á hreinu. Einnig eru stuttar færslur Hans Blæs á samfélagsmiðli birtar á milli kafla með fjölda læka og athugasemda.

Mikið að gerast í forminu

Sögumaðurinn er líka fremur óáreiðanlegur, en hann skrifaði þessa frásögn á pappír að eigin sögn, þvert á allt sem hann stendur fyrir, einhvern veginn hefði maður haldið að handskrifað handrit væri það síðasta sem slík fígúra léti frá sér fara. Hún þarf líka að minna lesandann annað veifið á það að hán sé að skrifa þessi orð sem fyrir augum renna og undirstrikar þannig spennuna milli fyrstu og þriðju persónu frásagnarinnar. Það er sem sagt mikið að gerast í forminu og er það athyglisverðasti þáttur verksins og tekst höfundi vel að halda utan um það og einnig söguþráðinn að mestu leyti þrátt fyrir ýmsa útúrdúra í tíma og jafnvel hálfgerðum fyrirlestrum um kyn, kyngervi og fleira sem snertir viðfangsefnið, eða öllu heldur sögumanneskjuna, ætti ég kannski að segja.

Eiríkur Örn hefur áður skrifað um efni sem að minnsta kosti við fyrstu sýn er á jaðrinum að því leyti að textinn reynir að nálgast grensuna eða tabúið, og ögra þannig lesendum, fara með þá inn á svið sem þeir óttast eða þekkja ekki, ögra einnig siðferðiskennd þeirra með því að hafa sögumanneskjuna afar tvíræða eða margræða öllu heldur. Hér er það intersex manneskja og transmaður sem segir frá, hán hefur rekið einhvers konar meðferðarheimili fyrir fórnarlömb nauðgana þar sem allt fer svo úr böndum að hán er eftirlýst af lögreglu, fyrir, að því er virðist, nauðgun. Prinsippið á meðferðarheimilinu er kannski eitthvað í þá áttina að illt skuli með illu út reka.

Kynverur utan rammans

Frásagnir af þessu tagi eru auðvitað ekki nýjar af nálinni, ekki frekar en flestar aðrar, en hér er höfundur áreiðanlega í takt við tímann. Að einhverju leyti minnti þessi saga og sögumanneskjan mig á Vladimir Nabokov, ekki síst Lolitu, en einnig fleiri bækur eftir hann, þetta snertir bæði það að nota sögumann sem lesandinn hlýtur að hafa sterka skoðun á eins og Humbert Humbert og vitaskuld þemað um kynlíf og kynverur sem standa utan rammans. Mannfyrirlitning nettröllsins er síðan í samræmi við sjálfhverfa mynd slíkra fígúra í þessari hefð, ef svo má kalla. Sögumanneskjan tekur síðan sjálf ofan fyrir Guðbergi Bergssyni sem einnig er þekktur fyrir að nota stundum afar ósympatískar fígurur sem sögumenn.

Erfitt er að meta hvort leikurinn með tabúin í þessari bók eigi eftir að hneyksla fólk yfirleitt, hugsanlega ólíklega lesendur, því einhvern veginn er ég ekki viss um að þeir smáborgarar sem tekið gætu andköf yfir þessu efni lesi þessa bók nokkru sinni; á hinn bóginn eru þeir vinstri sinnuðu smáborgarar, sem nettröllið hæðist að, líkast til nokkuð vel verseraðir í umfjöllun um intersex og transfólk og þeim brygði varla í brún yfir því; hugsanlega gæti einhverjum þótt það ósmekklegt að sögupersónan er svolítið vondi kallinn í sögunni, en þó efast ég um það. Hvað sem því líður eru þau síðarnefndu miklu líklegri lesendur en þau fyrrnefndu, og væri fróðlegt að vita hvort „góða fólkið“ hneykslast mikið á þessari sögu. Ég held ekki, hugsanlega gagnrýna einhverjir þetta, en ef það eru einhverjir sem orga í þessum heimi okkar í dag, þá eru það nettröllin og smáborgararnir sem röfla um „góða fólkið“ og „vinstri menn“ eins og það sé einhvers konar afbrot í sjálfu sér. Freud kallaði þetta vörpun, ef ég man rétt, og það virðist ekki vera alveg út í bláinn í þessu samhengi.

Aðrar persónur peð

Persónusköpun er kannski það sem helst vantar í þessa sögu, að sögumanneskjunni frátaldri. Frásagnarhátturinn verður til þess að hán drottnar yfir sögunni og við sjáum allar aðrar persónur í gegnum hána og hán virðist ekki hafa mikinn áhuga á öðru fólki, nema kannski móður sinni, sem það fyrirlítur, hugsanlega vegna þess hvernig það er af guði gert, það fer að minnsta kosti lítið fyrir Ödipusarduldinni hérna, nema ef til vill í blálokin, en það er tvírætt og kannski bara túlkun mín. Aðrar persónur eru aðeins peð í frásögninni og vel má vera að það sé hreinlega til að undirstrika sjálfhverfu Hans Blæs og má spyrja sig hvort hún stafi af því hvernig hán er sköpuð? Er hugsanlegt að slík sjálfhverfa sé hreinlega nauðsynleg fyrir einstakling sem er nokkuð einstakur og öðruvísi? Annars geti viðkomandi hreinlega orðið undir. Fólk sem á undir högg að sækja vegna ytri aðstæðna þarf oft að beita sér af meira afli en þeir sem fæðast á réttan stað á réttum tíma í réttum líkama.

Hans Blær er hins vegar mjög athyglisverð fígúra og ný viðbót við hefð hins ósympatíska sögumanns, og með öllum sínum flækjum, líkamlegum, andlegum, pólitískum er hán eitthvað sem við höfum ekki áður séð í íslenskum bókmenntum og hlýtur þannig að vinna sér sinn sess í þeim. Hvort sagan felur í sér þann bókmenntalega ávinning að hún yfirgnæfi sinn ósympatíska sögumann verður að koma í ljós, og hugsanlega verður það hin hryllilega orðræða gagnrýnenda, bókmenntakennara og annarra lesenda, væntanlega vinstri sinnaðra smáborgara, sem kveður upp úr um það. En á þann kviðdóm hefur ekki verið kallað enn.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Ég er ekki í bókmenntalöggunni“

Leiklist

Hlægileg líkamning illsku og oflætis

Leiklist

Samfélag sem gerir fávita að stjörnum

Leiklist

Hán Hans Blær er bæði reitt og frjálst