Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Tekist á um tónlistarnám

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV

Tekist á um tónlistarnám

01.06.2016 - 07:43

Höfundar

Snarplega var tekist á í umræðum á Alþingi í gærkvöldi um frumvarp meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda. Frumvarpið byggir á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá árinu 2011, og er nær samhljóða öðrum slíkum sem lögð voru fram 2011, 2014 og 2015.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, gagnrýndi harðlega að menntamálaráðherra hefði ekki staðið við loforð um að koma þessum málum í betra horf í eitt skipti fyrir öll svo ekki þyrfti ítrekað að bjarga skólunum frá þroti á síðustu stundu en héldi áfram að kenna Reykjavíkurborg um það ófremdarástand sem ríkti í málaflokknum. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra sagði það misskilning að frumvarpið miðaði að því að bjarga skólum frá þroti, það snerist eingöngu um að jafna aðstöðumun nemenda. Það fælist hins vegar hvorki sanngirni né metnaður í þeirri ákvörðun borgarinnar að hætta að veita fé til framhaldsnáms í tónlist eftir að samkomulag ríkis og sveitarfélaga tók gildi 2011. Spurði hann Össur, hvenær hann ætlaði að hafa kjark til þess að segja, að enginn bragur sé á því, að í höfuðborginni sé ekki boðið upp á tónlistarnám á framhaldsskólastigi. 

Hlusta má á umræðurnar á vef Alþingis.