Tekist á um mörk einkarýmis og almannarýmis

17.12.2018 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Tekist hefur verið á um mörk almannarýmis og einkarýmis, og rétt til upptöku þess sem þar fer fram, í minnst tveimur dómsmálum það sem af er öldinni. Þó svo hvorugt málið sé nákvæmlega eins og upptaka af tali sex þingmanna á Klaustri er þar tekist á um sömu atriði, hvort upptaka eða myndataka sé heimil og hvort hana megi nota opinberlega. Í báðum málum réð það úrslitum hvort umfjöllunarefnið teldist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu eða ekki.

Málin tvö eru um margt ólík. Annað er Bubbadómurinn sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars 2006 og Hæstarétti ári síðar. Þar var tekist á um það hvort Hér og nú, fylgiriti DV, hefði verið heimilt að birta mynd af Bubba Morthens þar sem hann sást reykja í bíl, og jafnframt hvort fyrirsögn á forsíðu „Bubbi fallinn“ hefði falið í sér ærumeiðandi aðdróttun. Hitt málið, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2009, snýr að upptöku og birtingu Kompáss, fréttaskýringaþáttar Stöðvar 2, á því þegar ofbeldismaður gekk í skrokk á manni sem hann taldi sig eiga inni pening hjá. Í fyrra málinu var myndataka og birting metin ólögleg en upptaka og birting var metin lögleg í síðara málinu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bubbi Morthens.

Bíllinn og friðhelgi heimilisins

Í júní árið 2005 birtist mynd af Bubba Morthens að reykja í bíl sínum á forsíðu Hér og nú undir fyrirsögninni „Bubbi fallinn“. Myndin var tekin af tónlistarmanninum, að honum óafvitandi, þar sem hann var stopp á rauðu ljósi á bíl sínum. Bubbi höfðaði mál gegn blaðinu og útgefanda blaðsins sem var fylgirit DV. Hann krafðist bóta vegna ærumeiðinga og brots á friðhelgi einkalífs síns. Ærumeiðinga vegna þess að fyrirsögnin gæfi til kynna að hann væri farinn að neyta fíkniefna á ný og brots á friðhelgi einkalífs þar sem hann hefði verið myndaður inn um glugga bíls síns. 

Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur dæmdu Bubba í vil, en tóku fram að við sérstakar aðstæður gætu aðrar ástæður heimilað myndatökuna. 

Í Héraðsdómi Reykjavíkur sagði meðal annars: „Telja verður að myndataka af manni sem situr í bifreið sé óheimil á sama hátt og myndataka á heimili hans, þótt við sérstakar aðstæður kunni hún að vera heimil. Myndir voru hér teknar af stefnanda þar sem hann sat í bifreið sinni á götuhorni í Reykjavík. Ökuferðin eða dvöl stefnanda í Reykjavík þá stundina var ekki sérstaklega fréttnæm og hafði ekki þýðingu í almennri þjóðfélagsumræðu á þeim tíma. Sama verður að segja um þær staðreyndir að hann var að tala í farsíma og var með sígarettu í munninum. Myndatakan og birting myndanna var því tilefnislaus. Með myndunum fann ritstjórn blaðsins tilefni til stuttrar umfjöllunar um bindindi stefnanda. Umfjöllun um það hvort stefnandi reyki sígarettur er ekki óheimil. Með því er ekki fjallað um einkamálefni hans svo ólögmætt geti talist. Myndatakan og birting myndanna var hins vegar óheimil. Hefur því verið brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda.“

Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu: „Friðhelgi einkalífs nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, skiptir grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings. Þær myndir sem hér eru til umfjöllunar tengjast á engan hátt slíkri umræðu. Tilgangur birtingar þeirra sýnist hafa verið sá einn að svara ætluðum áhuga almennings á einkamálefnum gagnáfrýjanda og framsetningin á forsíðu blaðsins miðuð við að auka sölu þess. Þegar umræddar myndir voru teknar var gagnáfrýjandi eins og áður sagði á ferð um Reykjavík í bifreið sinni. Mátti hann við þær aðstæður með réttu vænta þess að friðhelgi einkalífs síns yrði virt. Sú friðhelgi var brotin með birtingu fyrrgreindra mynda, bæði myndarinnar á forsíðu blaðsins og myndanna af gagnáfrýjanda...“

Ljósmyndaranum, sem var ekki starfsmaður fjölmiðilsins, var ekki stefnt vegna myndatökunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Hafnarfjarðarbær
Hafnarfjarðarhöfn.

Friðhelgi við höfnina

Seinna málið höfðaði maður vegna umfjöllunar í Kompási. Fjölmiðillinn tók upp samskipti stefnanda við annan mann við hafnarvogina í Hafnarfjarðarhöfn. Stefnandinn hafði í hótunum við manninn vegna skuldar sem hann taldi sig eiga hjá honum. Þessu lauk með því að hann gekk í skrokk á manninum og hætti ekki fyrr en frétta- og tökumenn fréttaskýringaþáttarins keyrðu upp að mönnunum.

Maðurinn höfðaði mál gegn tveimur fréttamönnum og fjölmiðlafyrirtækinu sem stóð að gerð þáttanna. Hann taldi að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs síns með myndatökunum. Hann hefði mælt sér mót við annan mann og það ætti ekkert erindi við almenning. 

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði fjölmiðilinn, árið 2009, og dómnum var ekki áfrýjað. „Við umrædda upptöku var stefnandi staðinn að alvarlegu lögbroti. Við slíkar aðstæður getur dómurinn ekki fallist á að sú vernd, sem 71. gr. stjórnarskrárinnar tryggir stefnanda, veiti honum skjól fyrir umfjöllun fjölmiðla. [...] Mestu skiptir hins vegar að upptakan, og síðar birting hennar, var raunsönn lýsing á samfélagsmeini, þar sem leikreglur samfélagsins eru þverbrotnar og uppgjör mála knúin fram með líkamlegu ofbeldi eða hótunum um slíkt eða aðrar ófarir. Stefndu höfðu áður fjallað um handrukkun, en þá vegna innheimtu fíkniefnaskuldar, og var umfjöllun þeirra liður í almennri umræðu um málefnið og þá ógn sem einstaklingum og öllu samfélaginu stafar af vinnubrögðum þeirra sem slíkt stunda. Þótt aðalefni myndskeiðsins og umfjöllunar stefndu hafi verið hinar ólögmætu starfsaðferðir stefnanda, verður að telja að birting myndar af honum hafi, eins og hér háttaði til, ekki falið í sér brot gegn rétti stefnanda til eigin myndar. Að áliti dómsins hafði almenningur augljósa hagsmuni af því að þekkja stefnanda og starfsaðferðir hans, og mun meiri en stefnandi af því að upptakan yrði ekki birt. Jafnframt er það álit dómsins að umfjöllun stefndu um stefnanda hafi í umrætt sinn bæði verið málefnaleg og byggð á staðreyndum,“ sagði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - rúv

Einn dæmdur en annar sýknaður

Fleiri mál hafa komið til kasta dómstóla þar sem tekist er á um heimildir til að birta upplýsingar. Þar má nefna lögbannsmál gegn fjölmiðlum.

Í tölvupóstamálinu var tekist á um hvort Fréttablaðið og DV hefðu mátt birta upplýsingar sem var að finna í tölvupóstum Jónínu Benediktsdóttur, sem fór í mál við blöðin. Fréttablaðið var dæmt í rétti, þar sem það hefði fjallað um það sem þar kom fram og snerti lýsingar á aðkomu nokkurra manna að upphafi Baugsmálsins, málaferla gegn eigendum Baugs. DV var dæmt í órétti þar sem það fjallaði um persónuleg málefni Jónínu.

Skemmst er að minnast þess að Stundin og Reykjavík Media máttu vinna og birta umfjöllun sem byggði á gögnum úr Glitni.