Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tekist á um lögmæti verkfalls

03.03.2020 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson - RÚV
Samtök atvinnulífsins (SA) fara fram á að fyrirhugað samúðarverkfall starfsmanna Eflingar hjá Samtökum sjálfstæðra skóla (SSSK) verði úrskurðað ólögmætt. Með því séu starfsmenn hjá SSSK orðnir beinir þátttakendur í verkfalli smeð það að markmiði að bæta eigin kjör.

Um 90 prósent starfsmanna Eflingar sem greiddu atkvæði um samúðarverkföll hjá einkareknum skólum og hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg samþykktu vinnustöðvanir í atkvæðagreiðslu. Að óbreyttu hefjast verkfallsaðgerðir þeirra sem heyra undir SSSK þann 9. mars.

Samtök atvinnulífsins vilja að samúðarverkfallið verði dæmt ólögmætt og var málið tekið fyrir í félagsdómi í dag.

Í stefnu SA segir að óumdeilt sé að starfsmenn Eflingar hjá SSSK fylgi þeim kjarasamningi sem Efling gerir við Reykjavíkurborg og munu laun þeirra taka þeim hækkunum sem samið verður um milli Eflingar og Reykjavíkurborgar.

Krafa SA byggir hins vegar á því að samúðarverkfall eigi ekki að hafa áhrif á kjör þeirra starfsmanna sem taka þátt í samúðarverkfalli, heldur séu samúðarverkföll eingöngu til stuðnings félagi sem er í löglegu verkfalli.

„Með samúðarverkfalli séu starfsmenn aðildarfyrirtækja SSSK orðnir beinir þátttakendur í verkfalli með það að markmiði að bæta eigin kjör,“ segir í stefnu SA og er vísað í opinber ummæli forsvarsmanna Eflingar um að svo sé raunin.  „Boðað  samúðarverkfall  Eflingar  gagnvart  SSSK  er  því  gert  til  að  auka þrýsting á Reykjavíkurborg að samþykkja kröfur sem aftur hafa bein áhrif á launakjör þeirra sem taka eiga þátt í samúðarverkfallinu.“