Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Teiknar það sem hann heyrir

Mynd: RÚV / RÚV

Teiknar það sem hann heyrir

30.11.2019 - 09:09

Höfundar

Einar Örn Benediktsson, tónlistar- og myndlistarmaður, opnaði í vikunni í húsi númer 15 við Laugaveg, sýningu sem nefnist Auglýsing. Þar sýnir hann ný og nýleg verk en Einar hefur á undanförnum árum sinnt myndlistinni í auknum mæli. ​

Einar Örn sýnir sextán verk á sýningunni. Aðspurður um það hvort myndlistin hans sé að breytast svarar hann því bæði játandi og neitandi. „Ég fór í myndlistarnám og það hefur haft einhver áhrif,“ segir Einar sem kallar myndir sínar sjálfsmyndir. „Þetta eru held ég allt sjálfsmyndir. Ég held að við séum þannig gerð að við kannski setjumst ekki niður og hlustum á okkur sjálf og reynum þá að hafa gaman af okkur sjálfum í staðinn fyrir að vera alltaf að leita að einhverjum fyrirmyndum annars staðar. Þannig að þessir aðilar sem mæta hérna í myndirnar mínar eru yfirleitt ég.“

Einar segist í verkum sínum fara á afvikinn stað þar sem hann hlustar á sjálfan sig, sína innri rödd. „Ég er að vissu leyti að fara aftur í hellinn, teikna hellamyndirnar, og reyna að byrja frá upphafi og reyna að hlusta á sjálfan mig og sjá hvað kemur út úr því. Ég er að gefa sjálfum mér sjens. Fólk er ekkert endilega að gefa sjálfu sér sjens alltaf. Það er alltaf eitthvað verið að skamma mann, maður standi sig ekki nógu vel, og maður verður óöruggur og frekar þunglyndur. Og svo þarf maður að faðma fólk og þá losast endorfín og serótónín.“​

Alltaf verið myndlistarmaður​

Einar segir að myndlistarmaðurinn í honum hafi alltaf verið til staðar. „Vinur minn Bragi Ólafsson bað mig alltaf um að myndskreyta kápurnar sínar. Og það má eiginlega rekja til baka þegar ég var í London, og þar var ég einn, og í einsemdinni byrjaði ég þar að teikna, en þær myndir eru miklu drungalegri og svakalegri. Ég skoðaði þessar myndir um daginn og þær eru allt annars eðlis.“​

Ekki bara myndir heldur líka hljóð​

Einar Örn er auðvitað þekktastur sem tónlistarmaður, meðlimur í hljómsveitum á borð við Purrk Pillnikk, Kukl, Sykurmolana og Ghostigital en kveðst ekki geta aðskilið myndlistina og tónlistina. „Ég get ekki aðskilið þetta, þetta er eins og tónlist fyrir mig að hlusta á teikninguna, þannig að svarið er bara „ég er í öllu,“ þannig að ég aðskil ekki þessar listgreinar eða starfsemi, þetta er alltaf ég.“

Myndlist hans sé þar að auki nátengd tónlist, verkin hans séu ekki bara myndir heldur líka hljóð. „Ég hef tekið upp hljóðið í teikningunni og það spila ég hérna líka þannig að þú getur alltaf hlustað á teikninguna, bara lokað augunum og hlustað á teikninguna. Því ég teikna það sem ég heyri, ekki það sem ég sé.“ Og hann brýnir fyrir áhorfendum að leggja við hlustir, „af því að við hlustum í raun og veru svo illa í dag, við heyrum ekki helminginn af því sem sagt er. Og við lesum fullt, en við lesum það ekki nógu vel eða nógu djúpt.“​

Rætt var við Einar Örn Benediktsson í Víðsjá. ​

Tengdar fréttir

Tónlist

„Honum fannst alveg frábært að vera hérna“

Popptónlist

Vildu reka Einar Örn úr Sykurmolunum

Popptónlist

Einar Örn, Curver og myndlistin