Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Teflir kveðskapnum gegn íbúaflótta

02.08.2015 - 11:20
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd af facebooksíðu Blönduó
Kvæðavefur Húnaflóa er ársgamall í vikunni. Ingi Heiðmar Jónsson, sem heldur utan um vefinn, segir að vefurinn sé öðru þræði áhugamál safnara og burtflutts Norðlendings, sem gjarnan vilji leggja nokkuð af mörkum til að efla menningu í heimabyggðum og snúast gegn fólksflótta af svæðinu.

Ingi Heiðmar hefur safnað saman kvæðum og lausavísum úr Húnavatnssýslu og af Ströndum í heilt ár og komið þeim fyrir á Húnaflóa –  Kvæða og vísnavef. Þar má nú nálgast vísur 377 hagyrðinga sem tengjast svæðinu með einum eða öðrum hætti.

Íbúum hefur fækkað mikið í Húnavatnssýslu á síðustu 25 árum.

„Það er mikilvægt að leita leiða til að efla samstöðu við flóann, því alltaf fækkar fólkinu og við viljum freista þess haldið í horfinu,“ segir Ingi Heiðmar sem trúir að Kvæðavefurinn geti verið vopn í þeirri baráttu.

„Ég vil trúa því að þetta geti verið ofurlítið lóð til þess að auka samheldnina,“ segir hann. Þess vegna segir Ingi mikilvægt að hafa stórt svæði undir, en hann safnar vísum úr Húnavatnssýslunum báðum og Strandasýslu.

Vísurnar voru fjölmiðlar
Húnaflóinn liggur milli Strandasýslu og Skagans, Hólmavík er stærsta þorpið að vestan, Blönduós og Skagaströnd að austan en Hvammstangi og skólasetrið og byggðasafnið á Reykjum eru mjög miðsvæðis. Vísunum safnar Ingi beggja vegna flóans. „Héröðin báðum megin flóans tengjast mikið. Strandafjöllin skarta fagurlegaí vestrinu þegar við stöndum í fjörunni á Blönduósi. Og meðan síldin réði uppbyggingu og Skagaströnd stefndi í að keppa við Siglufjörð fluttist þangað fólk úr afskekktum sveitum og landþrengslum, svo sem af Norðurströndum og innan af Laxárdal,“ segir Ingi og tekur fram að vísur hafi oft borist milli sveita og héraða.

„Vísurnar urðu stundum fjölmiðlar þess tíma og snjöll vísa sem hitti í mark gat orðið á undan póstinum þegar blöðin voru að byrja að koma út og landpóstar þurftu vikur til að flytja hann milli landshluta og stundum þurfti að dreifa þeim gegnum Kaupmannahöfn,“ segir hann.

Lagði undir sig enskuna
Ingi segir að á vefnum kenni ýmissa grasa, en nefnir einkum Sigurð Norland, sem var prestur í Hindisvík á öndverðri 20. öldinni. „Þegar ég var í MA í gamla daga þá vorum við stundum að grobba af Sigurði, því hann hafði ort hringhendu á ensku og við töldum að hún væri fyrsta hringhendan á ensku. Þetta líkaði okkur, að leggja undir sig enskuna með því að flytja þangað íslenska bragformið, þ.e. hringhenduna,“ segir Ingi Heiðmar og lætur hringhendu Sigurðar fylgja.

She is fine as morn' in may,
mild divine and clever,
lika a shiny summerday.
She is mine forever.

Sigurður á ófáar vísur inni á kvæðavef Húnaflóa.

Ingi Heiðmar segir að margar vísurnar hafi hann tekið upp úr ljóðabókum, stórt vísnasafn er varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Blönduósi. Skjalasöfn eru einnig á Hvammstanga og Hólmavík auk þess sem Húnvetningar og Strandamenn séu stöðugt að bæta við vísnaforðann.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV