Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ted Cruz segir fréttir af Íslandi „sorglegar“

15.08.2017 - 15:38
epa05245749 (FILE) A file photograph dated 12 February 2015 showing US Republican Senator from Texas Ted Cruz listen to a question during a joint news conference on the Homeland Security Department funding bill in the US Capitol in Washington, DC, USA.
 Mynd: EPA - EPA FILE
Ted Cruz, einn áhrifamesti þingmaður Repúblikanaflokksins, og bandaríska leikkonan Patricia Heaton, sem hlaut tvenn Emmy-verðlauna fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Everybody Loves Raymond, fara fremst í flokki þeirra Bandaríkjamanna sem eru rasandi eftir umfjöllun fréttaskýringaþáttar CBS um hvernig Downs heilkennið er smám saman að hverfa á Íslandi.

Cruz, sem bauð sig fram í forvali Repúblíkanaflokksins fyrir forsetakosningarnar á síðasta ári, segir á Twitter-síðu sinni að það sé sorglegt að sjá fréttir af því hvernig öllum fóstrum með Downs sé eytt á Íslandi. Börn með Downs eigi að njóta væntumþykju en ekki að vera eytt.

Heaton tekur mun sterkar til orðar og segir Íslendinga ekki vera að útrýma Downs-heilkenninu. „Þeir eru að drepa alla sem eru með það. Á því er stór munur.“

Heaton er yfirlýstur andstæðingur fóstureyðinga. Hún hefur sagt að sú skoðun eigi sér ekki marga fylgismenn í Hollywood. „Þar er ég sú eina sem hef sagt eitthvað um þessi mál. Mér finnst eins og ég eigi að gera það.“

Á vef Fox-fréttastöðvarinnar kemur fram að þáttur CBS um Ísland hafi fengið nokkuð sterk viðbrögð á samfélagsmiðlum. Fjöldi fólks hafi tjáð sig um þáttinn á Twitter þar sem Ísland er gagnrýnt.

Skimun og eyðingar á fóstrum með Downs-heilkenni eru hvergi eins miklar og á Íslandi, að því er fram kom í fréttum RÚV á síðasta ári. Tvö börn hafa fæðst á ári á liðnum fjórum árum. Á sama tíma hefur fóstureyðingum fjölgað. Til dæmis greindust fimmtán fóstur með Downs árið 2013 og var þeim öllum eytt. Það ár fæddust tvö börn með Downs.

Í frétt RÚV kom einnig fram að til stæði að taka upp nýja tækni á Landspítalanum til að greina litningagalla í fóstri sem leitar betur uppi fóstur með Downs. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfiðagreiningar, setti spurningamerki við þessa þróun í þætti CBS og taldi hana sýna hversu mikil áhersla væri lögð á ráðgjöf í þessum málaflokki. „Það er ekkert að því að vilja eignast heilbrigð börn. En það hversu langt við viljum ganga til að ná því markmiði er miklu flóknari ákvörðun.“