Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tchenguiz sakar Jóhannes um samsæri gegn sér

08.10.2018 - 20:29
Erlent · Innlent · Hrunið · Viðskipti
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Breski auðjöfurinn Robert Tchenguiz sakar lögmanninn Jóhannes Rúnar Jóhannsson um samsæri gegn sér þegar sá síðarnefndi starfaði fyrir slitastjórn Kaupþings. Jóhannes hafi, ásamt endurskoðunarskrifstofunni Grant Thornton, blekkt bresku efnahagsbrotalögregluna, Serious Fraud Office (SFO), til að hefja árið 2011 rannsókn á viðskiptum hans og Vincents bróður hans við Kaupþing, og beitt embætti Sérstaks saksóknara fyrir sig í þeim leiðangri sínum.

Lögmaður hins íranskættaða Tchenguiz, Stephen Rubin, setti þessar ásakanir fram í dómssal í Lundúnum í dag þar sem fyrir var tekið mál Roberts á hendur endurskoðunarskrifstofunni, tveimur starfsmönnum hennar og Jóhannesi Rúnari. City A.M. segir frá.

Vincent bróðir hans höfðaði rúmlega 300 milljarða króna bótamál á hendur sömu aðilum fyrir fjórum árum og Robert bættist svo inn í þá málshöfðun. Máli Vincents gegn Jóhannesi var vísað frá og fyrir ári samdi hann um svo um málalok við Grant Thornton, en mál Roberts, upp á um milljarð punda, jafnvirði 150 milljarða, lifir.

Tchenguiz-bræður voru handteknir árið 2011 þegar SFO rannsakaði viðskipti þeirra við Kaupþing í aðdraganda hrunsins. Rannsóknin var síðar felld niður og SFO greiddi þeim jafnvirði hundraða milljóna króna í bætur vegna málsins. Rubin sagði fyrir dómi í dag að aðgerðir SFO hefðu bitnað illa á skjólstæðingi hans, sem stæði nú frammi fyrir því að glata mögulega 20 milljóna punda glæsihýsi sínu í Kensington-hverfinu í Lundúnum.

Rubin heldur því fram að Jóhannes Rúnar og Grant Thornton hafi staðið á bak við hina ólögmætu rannsókn og hafi matað embætti Sérstaks saksóknara á þrettán fölskum ávirðingum sem rötuðu þaðan til SFO. Fulltrúar Grant Thornton hafi í kjölfarið átt sautján fundi með SFO og látið embættið hafa frekari upplýsingar. SFO hafi gleypt við samsærinu „með öngli, girni og sökku“.

Tilgangurinn hafi verið að koma félaginu R20, í eigu Roberts Tchenguiz, á kné og tryggja að Kaupþing, sem var skjólstæðingur Grant Thornton, fengi sem mestar heimtur á lánum sínum til Tchenguiz, sem skuldaði bankanum milljarð punda við hrunið.

Talsmaður Grant Thornton sagði að ásakanirnar væru tilbúningur og algjörlega án sannana. Lögmaður Jóhannesar Rúnars sagði að þær væru vanhugsaðar og tilhæfulausar. „Það er ótrúlegt að Robert Tchenguiz og lögmenn hans hafi ákveðið að halda til streitu þessum ásökunum þegar tilgátan sem þær byggjast á er jafnfráleit og gölluð,“ sagði hann.