Taylor Swift óþekkjanleg í gervi karlmanns

Mynd með færslu
 Mynd: Taylor Swift - YouTube

Taylor Swift óþekkjanleg í gervi karlmanns

27.02.2020 - 15:14
Taylor Swift er nánast óþekkjanleg í gervi karlmanns í tónlistarmyndbandinu við lag hennar, The Man, sem birt var í dag. Í lok myndbandsins er sérstaklega tekið fram að hún sjálf leikstýri, skrifi, leiki og eigi myndbandið en hún hefur undanfarið barist um eignarréttinn á lögunum sínum.

The Man er lag af nýjustu plötu Taylor, Lover, sem kom út í ágúst á síðasta ári. Í laginu syngur Taylor um alla þá hluti sem hún myndi gera ef hún væri karlmaður og þá segist hún vera orðin þreytt á því að hlaupa eins hratt og hún getur og veltir því fyrir sér hvort að hún kæmist hraðar á áfangastað ef hún væri karlmaður. 

Í myndbandinu má sjá Taylor, í gervi karlmanns, valda usla á vinnustaðnum sínum, sitja gleitt í neðanjarðarlest, pissa þar sem henni hentar og fá frekjukast í tennisleik. 

Í lok myndbandsins er tekið fram að það sé Taylor sjálf sem leikstýri, skrifi og eigi myndbandið. Það er augljós vísun í átökin sem Taylor hefur staðið í undanfarið varðandi eignarréttinn á upphaflegu upptökunum af lögunum á fyrstu sex plötunum hennar. Hún tjáði sig opinskátt um málið í júlí á síðasta ári þegar eignarrétturinn á plötunum var seldur til umboðsmannsins Scooter Braun. 

Þá sagðist hún vonast til þess að ungir tónlistarmenn eða krakkar með drauma um feril í tónlist myndu lesa þetta og læra hvernig þau ættu að vernda sig og sína tónlist þegar kæmi að samningaviðræðum.