Taylor Swift lætur fordómafullt fólk heyra það

Mynd með færslu
 Mynd: Taylor Swift VEVO - YouTube

Taylor Swift lætur fordómafullt fólk heyra það

18.06.2019 - 14:45
Nýjasta lag söngkonunar Taylor Swift, „You Need To Calm Down“, er ákall um jafnrétti og skilning og hvetur til aðgerða í málefnum hinsegin fólks í Bandaríkjunum.

Myndbandið við lagið, sem kom út í gær, er stjörnum prýtt. Leikkonan Laverne Cox sem var fyrsta opinbera transkonan til að vera tilnefnd til Emmy-verðlauna sést í myndbandinu. Hinir fimm fræknu úr Queer Eye-þáttunum halda teboð eins og þeim einum er lagið og listdansskautarinn Adam Rippon afgreiðir krap af mikilli list. Söngvarinn Adam Lambert húðflúrar þáttastjórnandann Ellen DeGeneres í hjólhýsi og keppendur úr raunveruleikaþáttunum RuPauls Dragrace bíða spenntar eftir því að RuPaul sjálfur krýni einhverja þeirra á meðan Taylor syngur: „We all got crowns, you need to calm down.“

Taylor hefur undanfarið ár tjáð sig töluvert um stjórnmál og studdi til að mynda opinberlega tvo frambjóðendur Demókrata í kosningunum til fulltrúar- og öldungadeildar bandaríska þingsins í nóvember. Í lok myndbandsins biður Taylor fólk að sýna stuðning og krefjast þess að lög í landinu komi jafnt fram við alla borgara þess. Þar biður hún fólk að skrifa undir beiðni hennar til öldungadeildarinnar um að styðja hið svokallaða „Equality Act“ sem myndi tryggja borgaraleg réttindi enn frekar og banna mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kyngervis.

Það sem kom hins vegar mörgum á óvart er þátttaka söngkonunnar Katy Perry í myndbandinu en hún og Taylor hafa lengi eldað grátt silfur saman. Deilurnar hófust fyrir um fimm árum með rifrildi söngkvennanna, samkvæmt heimildarmönnum yfir dönsurum. Þær skiptust svo á að syngja um hvor aðra en lagið „Bad Blood,“ sem Taylor gaf út árið 2015 á að fjalla um Katy og lagið „Swish Swish,“ með Katy var sagt fjalla um Taylor.

Nú virðist stríðsöxin hins vegar hafa verið grafin en í myndbandinu fallast þær í faðma klæddar í hamborgara- og frönsku-búninga. Taylor sagði í viðtali við BBC Radio að hún hefði spurt Katy hvort hún hefði áhuga á að vera í myndbandinu og að hún hefði svarað því að henni þætti frábært að þær yrðu táknmynd fyrirgefningar. 

Júnímánuður í Bandaríkjunum er helgaður baráttu hinsegin fólks en í ár eru fimmtíu ár frá Stonewall-uppþotunum í New York sem oft eru sögð marka upphafið að réttindabaráttu hinsegin fólks á Vesturlöndum eins og við þekkjum hana í dag.

Tengdar fréttir

Hönnun

Tískurisar minnast Stonewall-uppþotanna

Tónlist

Katy Perry og Taylor Swift grafa stríðsöxina

Menningarefni

Hnotskurn: Taylor Swift í uppáhaldi hjá nýnasistum

Norður Ameríka

Stonewall: Barinn sem hratt af stað byltingu