Tár, bros og gylltir hnettir

Mynd: EPA / EPA

Tár, bros og gylltir hnettir

08.01.2020 - 09:54

Höfundar

Það gekk á ýmsu á Golden Globe verðlaunaafhendingunni sem fram fór á dögunum þar sem Ricky Gervais sleppti algjörlega af sér beislinu og gekk fram af sumum gestum og áhorfendum á meðan aðrir dáðust að hispursleysi hans. Hildur okkar Guðnadóttir hreppti hnöttinn fyrir Jókerinn og gæti orðið fyrsti Íslendingurinn til að fá Óskarsverðlaun í næsta mánuði.

Fáir byrja árið jafn vel og Hildur Guðnadóttir sem braut blað í sögu hátíðarinnar þegar hún hreppti Golden Globe verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni Jókernum en hún á raunhæfan möguleika á að verða fyrsti Íslendingurinn sem vinnur Óskarsverðlaun.

Stóð við að tjalda öllu til

Kynnir Golden Globe hátíðarinnar í ár var grínistinn Ricky Gervais en hann var að kynna í fimmta skipti. Hann tók það fram að þetta væri hans síðasta framkoma á hátíðinni og þess vegna þyrfti hann ekkert að halda aftur af sér í meinfýsnu gríni, honum væri einfaldlega sama. Gervais stóð við orð sín og fór svo langt yfir strikið að mati umsjónarmanna á NBC að tvisvar voru ritskoðaðir stórir hlutar brandara hans, meðal annars einn sem fjallaði á líkamspart á leikkonunni Judy Dench, líkamspart sem einnig er kenndur við kisulóru á enskri tungu. 

Fræga fólkið nýtir gjarnan hátíðir sem þessar til að slá sér pólitískt á brjóst, senda þeim tóninn sem eitra heiminn með ósiðlegum stjórnar- eða viðskiptaháttum en strax í upphafi undirstrikaði Gervais tvískinnunginn sem felst oft í slíkum skilaboðum stjarnanna, með vísun í The Morning Show sem framleiddur er af Apple sem framleiðir vörur með ódýru vinnuafli við ómannúðlegar aðstæður. „Ef Íslamska ríkið stofnaði streymisveitu mynduð þið hringja í umboðsmennina ykkar,“ sagði Gervais og bætti við að stjörnurnar vissu ekkert um það að lifa og hrærast í hinum raunverulega heimi og hefðu flestar eytt minni tíma í skóla en loftslagsbaráttukonan Greta Thunberg.

Gantaðist með að geta rétt Netflix öll verðlaunin

Fyrir hátíðina varð ljóst að streymisveitur hefðu sótt allverulega í sig veðrið undanfarið ár. Netflix átti þannig met í tilnefningum og fékk 34, bæði í kvikmynda- og sjónvarpsþáttaflokkum. Í opnunarræðu sinni gantaðist Gervais meðal annars með að hann ætti bara að rétta Netflix öll verðlaunin og bjóða góða nótt.

Martin Scorsese fór tómhentur heim

Sú varð þó ekki raunin. Kvikmynd Martins Scorseses, The Irishman sem framleidd er af Netflix, hlaut til dæmis engin verðlaun. Netflix hlaut aðeins tvenn verðlaun af 34 tilnefningum en Olivia Coleman var valin besta aðalleikkonan í sjónvarpsþætti fyrir The Crown og Laura Dern valin besta aukaleikkonan í kvikmynd fyrir Marriage Story. Þrátt fyrir það má fullyrða að streymisveitur sem fyrirbæri hafi verið stóru sigurvegarar kvöldsins en Amazon Prime hlaut tvenn verðlaun fyrir gamanþættina Fleabag og Hulu einnig tvenn verðlaun þar sem Patricia Arquette var valin besta aukaleikkonan í þáttunum The Act en Ramy Youssef var valinn besti aðalleikari í sjónvarpsþætti fyrir hlutverk sitt í gamanþáttunum Ramy. HBO Max, streymisveita sjónvarpsstöðvarinnar HBO fékk fern verðlaun, tvenn fyrir Succession og tvenn fyrir Chernobyl. Einu verðlaunin sem féllu hefðbundinni sjónvarpsstöð í skaut voru verðskulduð verðlaun Michelle Williams fyrir túlkun sína á Gwen Verdon í þáttaröðinni Fosse/Verdon.

Hvatti konur til að nýta kosningarétt í eigin þágu

Þakkarræða Williams er meðal þeirra umræddustu í kjölfar hátíðarinnar en henni varð einnig rætt um mikilvægi þess að konur fái tækifæri til að skipuleggja barneignir út frá eigin þörfum og óskum og vísaði hún þar til réttarins til meðgöngurofs. Hvatti hún konur til að nýta kosningaréttinn í eigin þágu, rétt eins og karlar hafi gert árum saman. 

Ræða Patriciu Arquette vakti mikið umtal

Gervais hafði hvatt sigurvegara kvöldsins til að sleppa pólitíkinni enda væru þeir allir að vinna fyrir þorpara og ekkert mark á þeim takandi. Auðvitað var Williams ekki sú eina til að koma pólitísku efni að í ræðu sinni þótt flestir aðrir hafi rætt um skógareldana í Ástralíu. Sá fyrsti til að gera það var Russel Crowe sem vann gullhnöttinn fyrir aðalhlutverk í sjónvarpsmynd en hann var þó ekki á staðnum þar sem hann er einmitt þessa stundina að berjast við eldana í kringum heimili sitt. Það var Friends stjarnan Jennifer Aniston sem las ræðu Crowe, sem hann hafði sent inn fyrir hátíðina. Hann var þó ekki sá eini sem tjáði sig um ástandið í Ástralíu því Cate Blanchett, Ellen DeGeneres sem vann heiðursverðlaun og Joaquin Phoenix sem vann verðlaun fyrir aðalhlutverkið í Joker, minntust öll á eldana í ræðum sínum. Patricia Arquette, besta leikkonan í aukahlutverki, minntist einnig á eldana í sinni ræðu en meiri athygli vöktu orð hennar gegn drónaárásum Bandaríkjahers í síðustu viku. Hún sagði ljóst að almenningur verði að kjósa í forsetakosningunum 2020 og bað alla að kjósa fyrir komandi kynslóðir. 

Stundum eru ræður sannarlega pólitískar út frá því hvaðan orðin koma. Ræða leikkonunnar Awkwafina var þannig söguleg þar sem hún er fyrsta konan af asískum uppruna í sögu verðlaunahátíðarinnar sem er valin besta aðalleikonan. Sú hreppti hnossið fyrir leik sinn í kvikmyndinni The Farewell og tileinkaði hún föður sínum verðlaunin. 

Tom Hanks fékk heiðursverðlaun og táraðist, Reneé Zellweger var verðlaunuð fyrir túlkun sína á Judy Garland, Taron Egerton var verðlaunaður fyrir að túlka Elton John og þeir félagar voru verðlaunaðir fyrir besta frumsamda lagið í kvikmynd og suðurkóreski tryllirinn Parasite var valinn besta erlenda myndin.

epa08106598 Icelandic musician Hildur Guonadottir holds the award for Best Original Score - Motion Picture for 'Joker' in the press room during the 77th annual Golden Globe Awards ceremony at the Beverly Hilton Hotel, in Beverly Hills, California, USA, 05 January 2020.  EPA-EFE/CHRISTIAN MONTERROSA
 Mynd: EPA - RÚV
Hildur Guðnadóttir er talin líkleg um hituna á Óskarnum.

Þakkaði fjölskyldu sinni og umboðsmanni

Svo var það auðvitað sem fyrr segir Hildur Guðnadóttir sem tók við verðlaunum fyrir tónlistina í Jókernum og en það voru engir aukvisar sem eftir sátu. Bæði Alexandre Desplat (Little women) og Randy Newman (Marriage story) eiga tvenn Óskarsverðlaun á hillunni og þá þótti frændi Randy Newman, Thomas Newman, einnig líklegur til að hljóta verðlaunin fyrir tónlist sína fyrir stórmyndina 1917 sem var valin best í flokki dramatískra kvikmynda. Að auki var Daniel Pemberton tilnefndur fyrir Motherless Brooklyn en hann þótti ekki líklegur til að hreppa hnossið að þessu sinni. 

Í þakkarræðu sinni sagðist Hildur vera orðlaus en henni tókst þó að þakka samtökum erlendra blaðamanna í Hollywood sem veita verðlaunin, Todd Philips leikstjóra myndarinnar fyrir tækifærið og ævintýralegt ferðalag og Joaquin Phoenix fyrir að gera hennar vinnu auðvelda með frammistöðu sinni í myndinni. Að endingu þakkaði hún fjölskyldu sinni og umboðsmanni.

Braut blað í kvikmyndasögunni

Þótt Hildur hafi tileinkað Kára syni sínum verðlaunin þá vann hún þau einnig í þágu komandi kynslóða tónlistarkvenna. Hildur er enda fyrsta kventónskáldið til að vinna hnöttinn fyrir kvikmyndatónlist ein síns liðs en eina konan til að vinna þau áður var Lisa Gerrard sem deildi þeim með Hans Zimmer fyrir kvikmyndina Gladiator árið 2000. Þannig braut Hildur blað í kvikmyndasögunni eins og það væri ekki nógu spennandi að hún skyldi vera fyrsta íslenska konan til að vinna Golden Globe verðlaun.

Enn til mikils að vinna

Hildur er margverðlaunuð fyrir vinnu sína við Jókerinn og þáttaröðina Chernobyl sem færði henni nýverið Emmy verðlaun. Það er þó nóg eftir af verðlaunahátíðum en á sunnudag á Hildur möguleika á að vinna Critics Choice verðlaun fyrir Jókerinn og sunnudaginn 27. janúar gæti hún bætt Grammy verðlaunum í safnið fyrir Chernobyl. Mest er þó spennan fyrir Óskarsverðlaununum en Hildur er á stuttlista fyrir þau og er auðvitað ansi líkleg til að fá tilnefningu. Þær verða kynntar 13. janúar en sjálf verðlaunahátíðin fer fram 9. febrúar. Golden Globe verðlaunin hafa stundum verið ágætisspá fyrir Óskarinn en þó getur brugðið til beggja vona.  

Það er mikil pólitík að baki kosningum til Óskarsverðlauna. Eins og áður segir voru tveir fyrrum óskarsverðlaunahafar tilnefndir með Hildi til Golden Globe verðlauna en hennar helsta samkeppni þykir þó koma frá Thomas Newman fyrir 1917. Newman hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna 14 sinnum en aldrei farið heim með styttu og því er ekki ólíklegt að einhverjum þyki hann hafa beðið nógu lengi. Eins þykir tónlistin eftir Michael Giacchino í Jojo Rabbit leika lykilhlutverk sem vert er að verðlauna og svo markar árið líklega það síðasta þar sem meðlimir akademíunnar hafa tækifæri til að veita John Williams verðlaun en ekki þykir ólíklegt að tónlist hans fyrir Star Wars: The Rise of Skywalker verði hans síðasta verk, enda er hann 87 ára gamall og gæti viljað fara á eftirlaun. 

Hildur er hins vegar ofarlega, ef ekki efst á listum allra veðbanka og spekúlanta. Hún á raunhæfan möguleika á að verða fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskarsverðlaun og hvað getum við annað gert en að klæða okkur í landsliðstreyjuna, krossa fingur og klappa öllum hennar sigrum lof í lófa.

Fjallað var um Golden Globe verðlaunahátíðina í Lestinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hildur tilnefnd til BAFTA-verðlaunanna

Menningarefni

Hildur hlaut Golden Globe fyrir Joker