Tapaði bólusetningamáli - Nú með hlaupabólu

09.05.2019 - 04:53
Mynd með færslu
 Mynd:
18 ára bandarískur drengur sem höfðaði mál gegn menntaskólanum sínum fyrir að vera rekinn úr honum eftir að hafa neitað að vera bólusettur gegn hlaupabólu er nú með hlaupabólu. BBC hefur þetta eftir lögmanni drengsins. 

Jerome Kunkel komst í fjölmiðla vestanhafs í síðasta mánuði eftir að hann tapaði dómsmáli sínu gegn menntaskólanum sínum í Walton. Hann var rekinn þaðan fyrir að neita að fara í bólusetningu. Ástæða þess að hann vill ekki vera bólusettur eru trúarlegs eðlis að hans sögn, og segir í kærunni að bólusetningar séu ósiðlegar, ólöglegar og syndugar. Skólayfirvöld eru hins vegar ströng á því að banna öllum sem eru ekki bólusettir frá skólanum, eftir að yfir þrjátíu nemendur veiktust fyrir nokkru. Heilbrigðiseftirlit norðurhluta Kentucky ákvað þann 14. mars að útiloka óbólusetta nemendur frá námi og tómstundum. Dómari í máli Kunkels var sammála eftirlitinu.

Bill Kunkel, faðir Jerome, segir bóluefnin fengin úr fóstrum sem dóu í móðurkviði, og það stríði gegn trú fjölskyldunnar. Bóluefni gegn sumum sjúkdómum eru búin til úr frumum sem eru komin af efnum úr tveimur mennskum fóstrum frá sjöunda áratugnum. Síðan þá hafa engar nýjar mannsfrumur verið notaðar til framleiðslu bóluefna, hefur BBC eftir heilbrigðisyfirvöldum og lyfjaframleiðendum.

Hlaupbóla er mjög smitandi, en ekki banvænn sjúkdómur. Hiti, bólur og kláði eru helstu einkenni sjúkdómsins. Áður en bóluefni var búið til við hlaupabólu smituðust um fjórar milljónir Bandaríkjamanna af sjúkdómnum á ári hverju, en nú smitast aðeins um 12 þúsund árlega.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi